Innlent

Asó-litarefni einungis í gulum, appelsínugulum og rauðum Powerade

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Mynd: Timesunion

Þorsteinn M. Jónsson, stjórnarformaður Vífilfells, fullyrðir að Powerade íþróttadrykkir sem Vífilfell er með umboð fyrir hér á landi, innihaldi ekki svokölluð Asó-litarefni (e. Azo).

Fréttablaðið birti í dag grein á forsíðu um atvik sem átti sér stað þegar Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræðum, drakk flösku af bláum Powerade fyrir íþróttaleik og mjólkaði grænni brjóstamjólk í kjölfarið. Fréttin fjallaði einnig um möguleg áhrif svokallaðra Asó-litarefna á börn og að Neytendasamtökin vildu fá efnin af markaði hér á landi.

Ekki var gætt fyllstu nákvæmni við vinnslu fréttarinnar í Fréttablaðinu, þar sem litarefnið sem gefur Powerade Mountain Blast hinn bláa lit, Brilliant Blue FCF eða FD&C Blue No. 1 (e-133), er ekki flokkað sem asó-litarefni. Leiðréttist það hér með. Hins vegar er Brilliant Blue FCF bannað í fjölda Evrópulanda, þar á meðal Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Samkvæmt grein eftir David W. K. Acheson, yfirlækni á matvælaöryggissviði Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA), sem birtist á heimasíðu eftirlitsins, getur neysla á Brilliant Blue FCF orsakað bláan lit í húð, blóðvökva, þvagi og saur. Samkvæmt FDA geta einnig alvarlegri fylgikvillar fylgt neyslu á litarefninu.

Vífilfell er með umboð fyrir þrjár aðrar tegundir af Powerade hér á landi; Powerade Orange, Powerade Citrus Charge og Powerade Cherry. Allar tegundirnar innihalda þau litarefni sem flokkuð eru af Evrópuþinginu sem Asó-litarefni (e104 eða e122). Í júlí 2008 ákvað Evrópuþingið að merkja bæri öll þau matvæli sem innihalda eitthvað af þeim efnum sem flokkuð eru sem Asó-litarefni. Þær vörur beri að merkja skýrt þar sem efnin geta mögulega verið skaðleg börnum. Löggjöfin hefur þó enn ekki náð hingað til lands.



Tenglar:

Grein David K. Acheson, yfirlæknis hjá FDA,

Ályktun Evrópuþingsins um asó-litarefni frá 2008








Fleiri fréttir

Sjá meira


×