Innlent

Tólf kærur vegna vörslu barnakláms

Erla Hlynsdóttir skrifar

Tólf kærur vegna vörslu á barnaklámi bárust til lögreglu á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er svipaður fjöldi og á síðasta ári þegar tíu kærur voru lagðar fram vegna barnakláms fyrir septemberlok. Árið þar á undan var fjöldi kæra hins vegar tæplega helmingi meiri, eða nítján. 

Þetta kemur fram í gögnum sem embætti ríkislögreglustjóra tók saman fyrir Vísi. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu er varhugavert að leggja mikla merkingu í fækkun kæra á milli ára vegna þess um hversu fá mál er að ræða. 

Fyrr í dag sagði Vísir frá því að gríðarleg fækkun hefur orðið á kærum vegna nauðgana á börnum frá því á síðasta ári. Á síðasta ári varð nokkur fækkun þegar kemur að kærum vegna annars konar kynferðisofbeldi gegn börnum. 

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagðist telja þær tölur gefa vísbendingu um að þróunin væri á þá vegu að brotum hefði í raun fækkað þó erfitt sé að fullyrða um það. 

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu tók í sama streng, og telur öflugt forvarnarstarf loks hafa borið árangur.


Tengdar fréttir

Forstjóri Barnaverndarstofu: Ánægjuleg þróun

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu segir áhugavert hversu mjög kærum vegna nauðgana á börnum hefur fækkað milli ára. „Það er vissulega ástæða til að gleðjast ef þarna er um raunverulega fækkun að ræða," segir hann. Að mati Braga er fækkunin svo mikil að honum þykir líklegra en hitt að þarna hafi átt sér stað raunveruleg fækkun broga. „Þetta er ánægjulegur viðsnúningur frá síðustu árum þar sem málum hefur fjölgað ár frá ári,“ segir hann.

Barnaníð: Kærum fækkar gríðarlega

Mun færri kærur hafa borist lögreglunni vegna nauðgana á börnum það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins bárust embættinu átta kærur vegna nauðgana á börnum undir fimmtán ára en í lok september á síðasta ári voru kærurnar 32. Fyrstu níu mánuði ársins þar á undan voru kærurnar 26. Þetta kemur fram í samantekt Ríkislögreglustjóra og eru þar teknar tölur af landinu öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×