Innlent

Forstjóri Barnaverndarstofu: Ánægjuleg þróun

Erla Hlynsdóttir skrifar

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu segir áhugavert hversu mjög kærum vegna nauðgana á börnum hefur fækkað milli ára. „Það er vissulega ástæða til að gleðjast ef þarna er um raunverulega fækkun að ræða," segir hann. Að mati Braga er fækkunin svo mikil að honum þykir líklegra en hitt að þarna hafi átt sér stað raunveruleg fækkun broga. „Þetta er ánægjulegur viðsnúningur frá síðustu árum þar sem málum hefur fjölgað ár frá ári," segir hann.

Vísir sagði frá því fyrr í dag að átta kærur bárust lögreglunni fyrstu níu mánuði ársins vegna nauðgana á börnum. Á sama tíma í fyrra voru kærurnar 32 og árið þar á undan 26.

Ánægjulegur viðsnúningur.

Samkvæmt gögnum Barnaverndarstofu hefur orðið lítil fækkun á tilkynningum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum á milli ára. Þannig bárust 223 tilkynningar til Barnaverndarstofu vegna gruns um kynferðisofbeldi á fyrstu sex mánuðum ársins í ár en 223 á fyrstu sex mánuðum síðasta árs, eða 4,5 prósent af heildarfjölda tilkynninga til Barnaverndarstofu.

Bragi bendir á að þarna séu teknar til allar tilkynningar þar sem grunur leikur á slíku ofbeldi. Barnaverndarstofa tekur allar ábendingar til skoðunar en aðeins lítill hluti þeirra leiðir til þess að mál eru kærð til lögreglu.

Miðað við hversu mikil fækkun er á kærum til lögreglu á milli ára finnst Braga heldur líklegt að um raunfækkun brota sé að ræða sem sé ánægjulegur viðsnúningur frá þróun síðustu ára þar sem málunum hefur heldur fjölgað.

Evrópuráðið horfir til Íslands

Bragi telur að öflugt forvarnarstarf gegn kynferðisofbeldi hér á landi sé nú loks að skila sér.

Starfsemi Barnahúss hefur þótt til fyrirmyndar þegar kemur að þessum málaflokki. Þannig segir aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Maud de Boer-Buquicchio, í nýlegu viðtali að henni þyki mikið til Barnahússins koma og hvetur aðildarríki til að líta til þess hvernig unnið er að kynferðisbrotamálum gegn börnum á Íslandi þegar kemur að því að byggja upp barnvænt réttarkerfi.

Barnahús til fyrirmyndar

Evrópuráðið undirbýr nú herferð til að auka samfélagsvitund í aðildarríkjunum um vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Markmiðið er að vekja almenning, ekki síst foreldra, til vitundar um þá hættu sem steðjar að börnum í þessum efnum og sífellt tekur á sig nýjar myndir. Með þessum aðgerðum hvetur Evrópuráðið jafnframt stjórnvöld hvers aðildarríkis til að fullgilda og hrinda í framkvæmd nýjum sáttmála Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi.

Ísland hefur enn ekki fullgilt sáttmálann en undirbúningur að því er á vegum dómsmálaráðuneytis. Sáttmálinn hefur meðal annars að geyma þá hugmyndafræði sem íslenska Barnahúsið byggir á, að rannsókn mála fari fram í barnvænlegu umhverfi og að ólíkar stofnanir sem vinni að úrlausn mála vinni saman til þess að sem best verði komið til móts við þarfir barnsins.




Tengdar fréttir

Barnaníð: Kærum fækkar gríðarlega

Mun færri kærur hafa borist lögreglunni vegna nauðgana á börnum það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins bárust embættinu átta kærur vegna nauðgana á börnum undir fimmtán ára en í lok september á síðasta ári voru kærurnar 32. Fyrstu níu mánuði ársins þar á undan voru kærurnar 26. Þetta kemur fram í samantekt Ríkislögreglustjóra og eru þar teknar tölur af landinu öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×