Innlent

Steingrímur Hermannsson látinn

Steingrímur Hermannsson fyrrverandi forsætisráðherra Íslands er látinn á 82. aldursári. Hann lést á heimili sínu í Garðabæ í morgun. Greint er frá þessu á vefsíðu Framsóknarflokksins.

Steingrímur Hermannsson fæddist í Reykjavík 22. júní 1928. Foreldrar hans voru Hermann Jónasson alþingsmaður og ráðherra og kona hans Vigdís Oddný Steingrímsdóttir húsmóðir.

Eftirlifandi kona Steingríms er Edda Guðmundsdóttir. Saman áttu þau börnin Hermann Ölvi, Hlíf og Guðmund. Steingrímur eignaðist þrjú börn með fyrri konu sinni. Þau heita Jón Bryan, Ellen Herdísi og Neil.

Steingrímur lauk stúdentspróf frá MR 1948, B.Sc.-próf í rafmagnsverkfræði frá Illinois Institute of Technology í Chicago 1951 og M.Sc.-próf frá California Institute of Technology í Pasadena 1952. Hann þótti liðtækur í grískri glímu á námsárum sínum í Bandaríkjunum og hlaut þar auknefnið „Big Red".

Eftir að námu lauk starfaði Steingrímur sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952—1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni hf. 1953—1954. Hann átti sæti í varnarmálanefnd og var verkfræðilegur ráðunautur utanríkisráðherra varðandi Keflavíkurflugvöll 1954.

Steingrímur starfaði um tíma sem verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955—1956. Varð hann síðar verkfræðingur við Verklegar framkvæmdir hf. 1957 og framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins 1957—1978.

Steingrímur hóf snemma afskipti af stjórnmálum og var kosinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1971. Starfaði hann sem þingmaður og ráðherra allt fram til ársins 1994. Hann varð formaður flokksins frá 1979 til 1994.

Hann varð dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra árið 1978 og gengdi ýmsum ráðherraembættum þar til hann varð forsætisráðherra 1983. Hann varð aftur forsætisráðherra árið 1988 fram til 1991.

Steingrímur lauk opinberum ferli sínum sem bankastjóri við Seðlabanka Íslands en hann var fyrst ráðinn í þá stöðu 1994 og gengdi henni til 1998.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×