Enski boltinn

Eiður: Frábær tilfinning að vera kominn aftur til Englands

Ómar Þorgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Daníel

Landsliðsframherjinn Eiður Smári Guðjohnsen er í viðtali á opinberri heimsíðu Tottenham en hann gekk sem kunnugt er til liðs við Lundúnafélagið á lánssamning frá Mónakó á dögunum.

Eiður Smári kveðst vera afar spenntur fyrir því að vera kominn aftur til Englands og ætlar að gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að hjálpa Tottenham í baráttunni um Meistaradeildarsæti á yfirstandandi tímabili.

„Það er frábær tilfinning að vera kominn aftur til Englands og það er óhætt að segja að ég sé búinn að finna neistann aftur. Það er frábært að koma inn í búningsklefann og finna andrúmsloftið og húmorinn og allt það sem einkennir enska boltann.

Að vakna upp á leikdegi á Englandi er einstök tilfinning því það er eins og allur heimurinn sé að fylgjast með ensku úrvalsdeildinni og allt snúist um hana.

Ég er mjög ánægður með að fá þetta tækifæri að spila fyrir Tottenham. Liðinu hefur gengið vel til þessa á tímabilinu og ætti klárlega að stefna á fjórða sætið og ég mun gera mitt allra besta til þess að hjálpa liðinu til þess að ná markmiðum sínum.

Ég er reynslumikill og get þannig hjálpað liðinu bæði innan vallar sem utan og vonast einnig til þess að geta gefið þjálfaranum nýja vídd og aukað á breiddina hjá liðinu," segir Eiður Smári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×