Lífið

Íslenski veruleikinn elti kvikmyndahandritið

Mikið ævintýri
Hjálmar Einarsson segir það hafa verið mikið ævintýri að taka upp kvikmynd sína, Boðbera.  Darri Ingólfsson leikur aðalhlutverkið í myndinni.
Fréttablaðið/vilhelm
Mikið ævintýri Hjálmar Einarsson segir það hafa verið mikið ævintýri að taka upp kvikmynd sína, Boðbera. Darri Ingólfsson leikur aðalhlutverkið í myndinni. Fréttablaðið/vilhelm

Boðberi er íslensk kvikmynd sem fjallar um venjulegan mann sem skyndilega fær vitranir um lífið eftir dauðann. Kvikmyndin er í leikstjórn Hjálmars Einarssonar og á meðal leikenda eru Darri Ingólfsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Magnús Jónsson og Jón Páll Eyjólfsson.Myndin hefur verið nokkurn tíma í framleiðslu en að sögn Hjálmars er allri eftirvinnu nú að mestu lokið og hægt verður að bera afraksturinn augum innan skamms.

Auk þess að leikstýra kvikmyndinni skrifaði Hjálmar einnig handritið að henni og segist hann hafa gert það á mettíma. „Ég bjó í Prag í fimm ár og þegar ég flutti heim í byrjun árs 2008 leið mér eins og útlending í eigin landi. Á stuttum tíma voru risin hverfi sem ég þekkti ekki og maður sá byggingakrana á hverju götuhorni og fann hvernig þetta gróðraæði hafði tröllriðið öllu. Ég fór að velta þessu aðeins fyrir mér og byrjaði að skrifa handritið að Boðbera,“ útskýrir Hjálmar. Hann segir að myndin hafi verið skotin fyrir hrun og því hafi það komið honum á óvart hversu vel rættist úr söguþræði kvikmyndarinnar. „Myndin fjallar svolítið um hvernig venjulegt fólk rís upp gegn yfirvaldinu og þegar raunveruleikinn fór að elta söguþráðinn varð maður uggandi. En vonandi rætist ekki úr meiru því þá færi illa fyrir sumum.“

Hjálmar segir að það hafi verið mikið ævintýri að taka upp kvikmyndina, en alls komu hátt í þriðja hundrað manns að gerð hennar og voru vinnudagarnir langir og strembnir. „Þetta voru langir dagar og bjórbumban sem ég hafði safnað í Prag var horfin þegar tökum loks lauk. En þetta var líka algjört ævintýri og mikill hasar. Það er skemmtilegt að segja frá því að þegar við vorum næstum búin að mynda vantaði bara eina mótmælasenu sem átti að gerast á Austurvelli. Við ætluðum að reyna að redda því með tæknibrellum en stuttu áður en við réðumst í það var efnt til raunverulegra mótmæla á Austurvelli og ekki bara eina helgi, heldur helgi eftir helgi, þannig að allt í einu vorum við komnir með mótmælasenuna sem við þörfnuðumst.“ Áhugsömum er bent á heimsíðu kvikmyndarinnar sem er www.bodberi.com. -sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.