Innlent

Kreppan hefur ekki áhrif á geðheilsu barna

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans stendur nk. föstudag fyrir ráðstefnu um málefni sem tengjast geðheilbrigði barna og unglinga.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans stendur nk. föstudag fyrir ráðstefnu um málefni sem tengjast geðheilbrigði barna og unglinga. Mynd/GVA
Enn sem komið er hefur ekki orðið marktæk aukning í eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga hér á landi eftir bankahrunið. Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir barna- og unglingageðlækninga á BUGL, segir þó of snemmt að fagna. Erlendar rannsóknir bendi til þess að efnahagskreppa hafi neikvæð áhrif á geðheilsu barna og unglinga. BUGL stendur fyrir ráðstefnu næstkomandi föstudag um málefni sem tengjast geðheilbrigði barna og unglinga.

"Þetta kann að þýða að kreppan hafi ekki enn orðið jafn djúp og í þeim löndum sem hægt er að bera Ísland saman við, til dæmis hvað varðar atvinnuleysi og efnahag fjölskyldna. Einnig getur skýringarinnar verið að leita í óþekktum jákvæðum eða verndandi þáttum sem kunna hafa verið leystir úr læðingi í íslensku samfélagi," segir Ólafur og bætir við að of snemmt sé að fagna því neikvæð áhrif efnahagsstöðu fjölskyldna geti tekið lengri tíma að koma fram í eftirspurn eftir þjónustu.

Stuðningur í nánasta umhverfi mikilvægur

Ragna Kristmundsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun á göngudeild BUGL, segir stuðning í nánasta umhverfi skipta mestu máli fyrir góða geðheilsu barna og unglinga.

"Það er mikilvægt að foreldrar og aðrir aðilar sem koma að uppeldi barna, svo sem kennarar, íþróttaþjálfarar og starfsfólk félagsmiðstöðva séu vakandi fyrir líðan barnanna, meðvitaðir um helstu vísbendingar um að eitthvað bjáti á og leiðir til að bregðast við vandamálum," segir Ragna.

Ráðstefna í lok vikunnar

Á ráðstefnu BUGL verður fjallað um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga í sögulegu samhengi og velt vöngum yfir hvert skuli halda í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Einnig verður lögð áhersla á bjargráð og hagnýtar leiðir til að koma auga á og bregðast við algengum erfiðleikum. Ólafur mun flytja erindi um áhrif efnahagsástandsins á geðheilsu barna og unglinga. Ragna stýrir vinnuhópi um hvernig má meta þunglyndi og sjálfsvígshættu hjá sama hópi.

Ólafur segir að ráðstefnan sé ætluð starfsfólki þjónustumiðstöðva, skóla, félagsþjónustu, barnaverndar, heilsugæslu, foreldrum og öðrum sem hafa áhuga. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu er að finna á vef Landspítalans, www.lsh.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×