Innlent

Um 500 störf hafa glatast vegna hestapestarinnar

Um 500 störf hafa glatast vegna hóstapestarinnar sem nú herjar á hrossastofninn í landinu. Áhrifanna gætir í öllum geirum hestamennskunnar og fjárhagslegt tjón er talið í milljörðum.

Pestarinnar varð fyrst vart í vor. Hestar sem fá pestina fá hósta og hor og eru mjög slappir. Í fyrstu var talið að pestin myndi ganga yfir á nokkrum vikum en nú er komið fram í júní og hestar eru enn að veikjast. Nú þegar hefur landsmóti hestamanna verið frestað vegna pestarinnar sem og nokkrum mótum. Allur iðnaður tengdur hestamennsku á landinu, hvort sem það er í ferðamennsku, tamningu, sölu eða öðru liggur næstum niðri á meðan. Og tjónið er gríðarlegt.

„Þetta er gríðarlegt áfall. Það eru um 500 atvinnulausir út af þessu. Guðni Ágústsson sagði fyrir nokkrum árum að hestamennskan væri stór innan sveitanna og það er alveg hárrétt," segir Sigurður Ævarsson, stjórnarmaður í Landssambandi hestamannafélaga.

Það er ómögulegt að skjóta á hversu fjárhagslegt tjón hefur orðið af völdum pestarinnar. Hagsmunaðilar í ferðamannaiðnaði hafa talað um tvo milljarða og þá er ekki talið með tjón tamningamanna, ræktenda og svo framvegis.

Sigurður segir að þetta sé ófremdarástand. „Það verður að laga þetta. Það er alveg á hreinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×