Erlent

Líf heimastjórnar hangir á bláþræði

Gerry Kelly og Gerry Adams Aðalsamningafulltrúi Sinn Fein og formaður Sinn Fein, helsta stjórnmálaafls kaþólskra á Norður-Írlandi.Nordicphotos/AFP
Gerry Kelly og Gerry Adams Aðalsamningafulltrúi Sinn Fein og formaður Sinn Fein, helsta stjórnmálaafls kaþólskra á Norður-Írlandi.Nordicphotos/AFP
Stífum tíu daga samningaviðræðum sambandssinna og lýðveldissinna á Norður-Írlandi lauk í gær þegar fulltrúar lýðveldissinna sögðu nóg komið. Sambandssinnar þurfa nú að taka afstöðu til málamiðlunartillögu, sem lýðveldissinnar hafa fallist á. Stjórnvöld á Bretlandi og Írlandi hafa haft forystu um samningaviðræðurnar, sem hófust 25. janúar síðastliðinn. Sinn Fein, helsta stjórnmálaafl hinna kaþólsku lýðveldissinna, hefur krafist þess að nýtt ráðuneyti dómsmála verði stofnað innan heimastjórnar Norður-Írlands. Nýja ráðuneytið myndi fá það hlutverk að hafa yfirumsjón með dómstólum og lögreglu á Norður-Írlandi. Sinn Fein hefur hótað því að segja sig úr heimastjórninni og þar með líklega gera að engu friðarsamkomulagið frá 1998 fallist sambandssinnar ekki á þetta fyrirkomulag. Sambandssinnar, sem flestir eru mótmælendatrúar, hafa hins vegar ekki viljað fallast á þetta. Vandamálið er að flokkar sambandssinna í heimastjórninni eru klofnir í afstöðu sinni. Ástæða klofningsins er meðal annars sú, að margir hófsamir sambandssinnar telja óráðlegt að láta undan kröfum lýðveldissinna á kosningaári af ótta við að tapa atkvæðum til harðlínumanna. „Viðræðunum er lokið,“ sagði Gerry Kelly, aðalsamningafulltrúi Sinn Fein í gær. „Samninganefnd okkar telur að við séum komin með grundvöll til þess að þoka málunum áfram.“ Umsjón löggæslu og dómsmála á Norður-Írlandi hefur verið í höndum Breta, en kaþólskir hafa gert kröfu um að stjórn þeirra verði færð í hendur heimamanna. Ríkisstjórnir Bretlands, Írlands og Bandaríkjanna hafa stutt það, í þeirri von að við þá breytingu aukist almennur stuðningur meðal kaþólskra við lögreglu og dómstóla. Mótmælendur hafa hins vegar beitt neitunarvaldi sínu, ekki síst af ótta við að fyrrverandi liðsmenn Írska lýðveldishersins fái að taka þátt í stjórn þessa málaflokks. Þegar friðarsamkomulagið var gert fyrir nærri tólf árum höfðu kaþólskir lýðveldissinnar þá barist áratugum saman hatrammri baráttu fyrir aðskilnaði Norður-Írlands frá Bretlandi og helst sameiningu við Írland. Þau átök kostuðu um 3.700 manns lífið. gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×