Enski boltinn

Ashton: Þýðir ekkert að vera að vorkenna sjálfum sér

Ómar Þorgeirsson skrifar
Dean Ashton.
Dean Ashton. Nordic photos/AFP

Dean Ashton er smátt og smátt að takast á við þá staðreynd að hafa þurft að leggja skóna á hilluna frægu aðeins 26 ára gamall en hann lýsir reynslu sinni í viðtali við Sky Sports fréttastofuna í dag.

Þessi fyrrum framherji West Ham og enska landsliðsins neyddist til þess að hætta í boltanum rétt fyrir jól á þessu tímabili eftir erfið ökklameiðsli en Ashton lék alls tæplega 250 leiki á ferlinum með Crewe, Norwich og West Ham.

Ashton ökklabraut sig á æfingu hjá enska landsliðinu árið 2006 og náði í raun aldrei fullum bata eftir það.

„Það þýðir ekkert að vera að vorkenna sjálfum sér og hugsa hvað ef. Ef maður er endalaust að velta því fyrir sér hvað hefði gerst ef ég hefði ekki meiðst þá verður maður bara brjálaður.

Ég hugsa frekar um hversu frábæran feril ég hafi átt og hversu heppinn ég hafi verið að mörgu leyti. Ég meina ég fékk tækifæri á að spila í úrslitaleik enska bikarsins og skoraði mark auk þess sem það var frábær reynsla að spila fyrir enska landsliðið.

Þó svo að ég hafi bara spilað einn leik þá var það frábær upplifun og eitthvað sem enginn getur tekið frá mér," segir Ashton sem útilokaði ekki að gera eitthvað í tengslum við fótbolta í framtíðinni hvort sem það væri þjálfun eða eitthvað annað.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×