Íslenski boltinn

Kári Ársælsson: Dýrt að missa hausinn í fimm mínútur í fyrri hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Ársælsson, fyrirliði Blika.
Kári Ársælsson, fyrirliði Blika. Mynd/Stefán
Breiðablik þurfti annað árið í röð að sætta sig við silfur í Lengjubikarnum en liðið átti þó eitthvað meira skilið eftir fína frammistöðu í 1-2 tapi á móti KR í úrslitaleiknum í Kórnum í dag.

„Við sofnuðum í fimm mínútur í fyrri hálfleik og það reyndist okkur dýrkeypt í dag. Við fengum fín færi til að klára þetta en þetta gekk ekki upp í dag. Þetta var samt ágætis leikur en við hefðum mátt aðeins spila boltanum betur," sagði Kári Ársælsson, fyrirliði Blika við Sporttv eftir leikinn.

Blikar léku manni færri síðustu 14 mínútur leiksins en voru samt oft nærri því að jafna leikinn og tryggja sér framlengingu.

„Liðin eflast oft við að missa mann útaf og við gerðum það kannski í dag. Það vantaði herslumuninn hjá okkur að klára dæmið og jafna leikinn. Eins og menn sáu þá er er dýrt að missa hausinn í fimm mínútur í fyrri hálfleik," sagði KR.

Blikar hvíldu þrjá lykilmenn í þessum leik, framherjana Alfreð Finnbogason og Guðmund Pétursson og svo miðjumanninn Guðmund Kristjánsson. Þeir eiga allir við smávægileg meiðsli að stríða.

„Við misstum mjög sterka menn út fyrir þennan leik en þeir sem komu inn stóðu sig virkilega vel. Það sýnir bara breiddina og hópinn sem við höfum. Við erum til alls líklegir ef við höldum vel á spöðunum," sagði Kári.

„Við höfum reynt að spila eins og Óli leggur upp og menn vita sitt hlutverk í liðinu. Þegar við fylgjum taktíkinni þá erum við ansi sterkir. Þetta lofar góðu" sagði Kári.

Breiðablik mætir FH í meistarakeppni KSÍ á þriðjudaginn og getur þar náð í gullið sem kom ekki í hús í dag.

„Við ætlum að fara á fullu í þann leik, víst að við töpuðum þessum leik þá förum við enn brjálaðri í þann leik. Það þýðir ekkert annað en að taka hann og koma brjálaðir inn í sumarið," sagði Kári að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×