Íslenski boltinn

KR og Breiðablik mætast í úrslitaleik Lengjubikarsins í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikinn Guðmundur Kristjánsson og KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson.
Blikinn Guðmundur Kristjánsson og KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson. Mynd/Stefán
KR og Breiðablik spila til úrslita í Lengjubikar karla í Kórnum í dag en leikurinn hefst klukkan 16.00 og verður í beinni útsendingu á Sporttv. Blikar eru eina liðið sem hefur unnið KR á þessu ári og eiga Vesturbæingar því harma að hefna í dag.

KR hefur leikið fjórum sinnum til úrslita í deildabikarnum og unnið þrjá leikjanna. KR vann Val í vítakeppni 1998 og FH í vítakeppni 2001. KR tapaði síðan fyrir FH í úrslitaleiknum 2004 en vann síðasta úrslitaleik sinn sem var á móti Þrótti árið 2005. Sigmundur Kristjánsson skoraði þá sigurmark KR-inga en aðeins tveir leikmenn KR-liðsins í þeim leik (Skúli Jón Friðgeirsson og Gunnar Kristjánsson) spila enn með liðinu í dag.

Breiðablik hefur tvisvar áður leikið til úrslita og tapað í bæði skiptin. Blikar töpuðu 1-3 fyrir ÍA eftir framlengdan leik árið 1996 og töpuðu síðan 0-3 á móti FH í úrslitaleiknum í fyrra. Þetta er því annað árið í röð sem Blikar reyna að vinna deildabikarinn í fyrsta skiptið.

Liðin mættust fyrir tveimur vikum á gerigrasvelli KR og unnu Blikarnir 2-0 með mörkum Alfreðs Finnbogasonar og Jökuls Elísarbetarsonar. Þetta er eini ósigur KR-inga á árinu en KR-liðið komst í úrslitaleikinn eftir að hafa unnið erkifjendur sína í FH og Val með markatölunni 7-1. Breiðablik komst í úrslitaleikinn eftir sigur á Fram í vítakeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×