Innlent

Aukin ábyrgð og stærri og færri ráðuneyti

Stjórnarráð íslands Starfshópurinn, sem Gunnar Helgi Kristinsson veitti formennsku, leggur til ýmsar breytingar á starfsemi Stjórnarráðsins.fréttablaðið/gva
Stjórnarráð íslands Starfshópurinn, sem Gunnar Helgi Kristinsson veitti formennsku, leggur til ýmsar breytingar á starfsemi Stjórnarráðsins.fréttablaðið/gva

Starfshópur forsætisráðuneytisins leggur til umfangsmiklar breytingar á stjórnsýslunni og stjórnarskránni í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Áhersla er lögð á færri og stærri ráðuneyti, söfnun upplýsinga og að ráðherrar beri aukna ábyrgð.

Starfshópurinn tekur í meginatriðum undir aðfinnslur rannsóknarnefndarinnar. Hans var að útfæra hugmyndir um hvernig brugðist yrði við þeim og útfæra nánar þær breytingar sem ráðast ætti í og beina sjónum sínum að stjórnsýslunni og stjórnarráðinu.

Niðurstaða starfshópsins er að mjög mikilvægt sé að tillögum í skýrslunni sé fylgt. Ýmis atriði eru komin á rekspöl, til að mynda er starfandi nefnd um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands og tengdri löggjöf. Starfshópurinn leggur til að ýmsum atriðum verði vísað til þeirrar nefndar.

Auk þeirra tillagna rannsóknarnefndarinnar sem starfshópurinn mælist til að farið sé eftir, leggur hann til beinar aðgerðir í níu liðum.

Þegar þeir eru skoðaðir sést að efling ráðuneyta er ofarlega í huga hópsins. Hann leggur mikla áherslu á að þau verði stærri og öflugri stjórnsýslueiningar og embættismönnum verði betur gert kleift að sinna skyldum sínum. Það á einnig við um ráðherra, en því er velt upp hvort ekki eigi að rýmka heimildir þeirra til að ráða sér pólitíska aðstoðarmenn.

Þá er einnig lögð rík áhersla á að ábyrgð sé skýrð; bæði ráðherra og embættismanna. Ljóst verði að vera hverju sinni hvar hún liggi.

Efla upplýsingar og eftirlit
GUNNAR HELGI KRISTINSSON
Í því skyni er lagt til að komið verði upp óháðu eftirliti með ráðuneytum. Lagt verði mat á frammistöðu æðstu stjórnenda. Þá þurfi að lögfesta skyldur og ábyrgð embættismanna betur, ekki síður en ráðherranna sjálfra.

Meðal þess sem starfshópurinn leggur til að gert verði er að stuðla að svokölluðum samstöðuskapandi stjórnmálum. Með því er átt við að sá hópur sem kemur að ákvörðunum verði víkkaður út. Þar er horft til þess að stjórnarandstaðan sé höfð með í ráðum. Í því skyni leggur hópurinn til að hlutverk Alþingis verði eflt.

Þá er mikið lagt upp úr því að upplýsingasöfnun sé ábótavant. Gera verði gangskör að því að bæta hana, bæði hvað varðar formlega og óformlega fundi. Það nái einnig til munnlegra upplýsingar. Hópurinn varar þó við því að upplýsingalög megi ekki koma í veg fyrir samráð, eða samstarf, á milli stjórnvalda.

Starfshópinn skipuðu þau Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem gegndi formennsku, Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Ómar H. Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir hæstaréttarlögmaður og Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Með hópnum starfaði Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×