Lífið

Klúrasta bók allra tíma frá Evu norn

samstarfsverkefni Eva vann bókina með ljósmyndaranum Ingólfi Júlíussyni.
samstarfsverkefni Eva vann bókina með ljósmyndaranum Ingólfi Júlíussyni.

„Ég veit alveg að það verða margir sem hneykslast á því sem ég leyfi mér að segja í bókinni. Það er allt í lagi. Fólk má alveg hneykslast,“ segir Eva Hauksdóttir, betur þekkt sem Eva norn.

Eva sendir frá sér bókina Ekki lita út fyrir á næstunni, en verið er að ganga frá lausum endum í sambandi við útgáfuna. Eva segir að bókin verði klúrasta bók allra tíma, en ekki endilega vegna þess að hún sé klámfengin.

„Hún er bara svo blygðunarlaus,“ segir hún. „Ljósmyndirnar eru til dæmis ekki fegraðar. Hrukkur og lærapokar eru ekki tekin í burtu og það er náttúrlega bara ógeð.“

Um 60 ljósmyndir prýða bókina, en þær voru teknar af Ingólfi Júlíussyni, samstarfsmanni Evu. Eva er ófeimin á myndunum og situr meðal annars fyrir nakin. „Þetta er mjög nakin og umbúðalaus bók. En þetta er ekki Hustler eða neitt svoleiðis,“ útskýrir hún.

Texti bókarinnar er unninn upp úr vefsíðu Evu og segir hún að mörkin milli skáldskapar og sannleika sé oft óljós. „Ég kalla þetta sýndarraunsæi. Ég er voða mikið að leika mér að mörkunum milli skáldskapar og ævisögu og reyni að má þau út.“

Eva var talsvert í sviðsljósi fjölmiðla í búsáhaldabyltingunni sem átti sér stað í kjölfar efnahagshrunsins. Hún var ein af þeim sem Helgi Felixson fjallaði um í myndinni Guð blessi Ísland og er nú búsett í Danmörku. Eva býst við að efni bókarinnar eigi eftir að hneyksla marga.

„Ég þyki öfgafull. Ég tek það ekki nærri mér, það þarf að vera til fólk í samfélaginu sem segir það sem aðrir láta sér nægja að hugsa og gerir það sem aðrir láta sér nægja að tala um,“ segir hún. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.