Fjölnir úr Grafarvogi varð í dag Íslandsmeistari í fótbolta innanhúss, Futsal. Liðið vann 3-2 sigur á Víkingi Ólafsvík í jöfnum og spennandi úrslitaleik sem fram fór í íþróttahúsinu á Álftanesi.
Ólafsvíkingar komust í 2-1 í leiknum en Fjölnismenn náðu að snúa blaðinu við. Á lokasekúndunum voru Ólafsvíkingar hársbreidd frá því að ná að jafna en þá átti liðið meðal annars skot í stöngina.
Fjölnismenn voru því krýndir Íslandsmeistarar í Futsal fyrir árið 2011 en mótið var haldið fyrr en vanalega vegna þátttöku íslenska landsliðsins í Evrópukeppni í næsta mánuði.