Fótbolti

Beckham sendur til að heilla Sepp Blatter og fá HM til Englands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Mynd/ GettyImages
David Beckham mun taka það að sér persónulega að fara með framboðsmöppu Englendinga fyrir HM 2018 til Sepp Blatter, forseta FIFA. Beckham mætir til Zurich á föstudaginn með framboðsmöppuna en hún geymir allar upplýsingar um hvernig Englendingar ætla að halda HM fái þeir tækifæri til þess.

„Það eru frábærar fréttir að David hafi tíma til þess að fara til Zurich og koma fram fyrir okkar hönd. Okkar framboð snýst um fótbolta og það að sýna ástríðu okkar þjóðar fyrir fótboltanum. Þar er enginn betri til að sýna það en David. Hann er frábær fótboltamaður og fyrirmynd út um allan heim," sagði Lord Triesman sem er formaður framboðs Englendinga.

Beckham hitti síðast Sepp Blatter í Höfðaborg í desember þegar dregið var í riðla á HM. Það er líklegt að Beckham hafi meiri tíma til að sannfæra FIFA-menn um að leyfa Englendingum að halda HM, nú þegar hann spilar ekki fótbolta næstu mánuði eftir að hafa slitið hásin.

Það er nánast öruggt að HM 2018 fari fram í Evrópu en þar kemur mesta samkeppnin frá Rússlandi og tveimur sameiginlegum framboðum frá Spáni og Portúgal annarsvegar og Hollandi og Belgíu hinsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×