Innlent

Árni búinn að skila inn uppgjöri

„Ég sendi inn í sumar en svo kom í ljós að það hafði ekki skilað sér þannig ég sendi þetta aftur í gær," segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Árni Johnsen, en Vísir greindi frá því fyrr í dag að að hann væri eini þingmaðurinn sem hefði ekki skilað inn fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar vegna þátttöku í prófkjöri eða forvali vegna þingkosninga í vor.

Af samtals 318 frambjóðendum sem tóku þátt í prófkjöri eða forvali innan stjórnmálaflokkanna vegna kosninganna hafa 281 nú skilað upplýsingum um kostnað sinn til Ríkisendurskoðunar. Þar af hafa 43 frambjóðendur skilað fjárhagslegu uppgjöri en 238 yfirlýsingu um að kostnaður þeirra hafi ekki verið umfram 300 þúsund krónur. Samtals eiga því 37 frambjóðendur enn eftir að skila en samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda er þeim skylt að gera það.

Árni segist ekki hafa fengið neina styrki og því fór hann ekki yfir þrjúhundruð þúsund króna markið. Hann lét ritara senda yfirlýsingu þess eðlis til Ríkisendurskoðanda í gær.

Aðspurður hversvegna fyrri skilaboðin hafi misfarist segir Árni að það hafi einfaldlega verið vegna vankunnáttu sinnar á tölvu.

Síðan vekur athygli að Árni hefur ekki skilað inn upplýsingum um hagsmunatengsl sem sjá má á vef Alþingis og fjölmargir þingmenn hafa svarað. Spurður hverju það sæti svarar hann að hann hafi engin hagsmunatengsl, „svo finnst mér þetta brandari," segir hann og bætir við: „Ég eyði ekki tímanum í svona helvítis kjaftæði."


Tengdar fréttir

Árni skilaði einn ekki uppgjöri

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er eini þingmaðurinn sem skilaði ekki inn fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar vegna þátttöku í prófkjöri eða forvali vegna þingkosninganna í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×