Innlent

Sakar ríkisstjórnina um lýðskrum

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra vísar þeim ummælum fjármálaráðherra til föðurhúsanna að bylta þurfi skattkerfinu því það gamla sé reist á flötum tekjuskatti frjálshyggjuhagfræðinnar.

Þorsteinn andmælir þessu í pistli í helgarblaði Fréttablaðsins. Hann segir rangt að núverandi kerfi byggist á flötum skatti. Persónuafslátturinn sé föst krónutala og því felist í kerfinu stighækkandi skattur eftir tekjum. Þorsteinn segir jafnframt að kerfið hafi verið unnið samkvæmt samkomulagi, meðal annars við Alþýðusambandið, á níunda áratugnum. Staðhæfing Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um frjálshyggjuhagfræði sé því lýðskrum af versta tagi og óvirðing við þáverandi fulltrúa ASÍ.

Steingrímur og hans flokkur hafi staðið að þessari breytingu á sínum tíma - og setið í þeirri ríkisstjórn, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók fyrsta skrefið til að skemma kerfið, að mati Þorsteins, með því að afnema tengingu persónuafsláttar og barnabóta við lánskjaravísitölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×