Innlent

Steingrímur mælti fyrir frumvarpi um niðurskurð

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra,
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Mynd/Daníel Rúnarsson

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í frumvarpinu er leitað leiða til þess að bæta stöðu ríkissjóðs eftir bankahrunið með ýmsum aðgerðum og sagði ráðherrann ætlunina að minnka bilið á milli tekna og útgjalda. Steingrímur sagði að í frumvarpinu væri mennta- og félagsmálum hlíft eftir megni.

Frumvarpið gerir ráð fyrir 10 milljörðum króna í auknar tekjur strax á þessu ári. Þetta verður meðal annars gert með því að hækka fjármagnstekjuskatt, virðisaukaskatt á ýmsar sykraðar vörur og tryggingagjald á atvinnurekendur. Þá verður sérstakur skattur lagður á tekjur umfram 700 þúsund krónur.

Steingrímur sagði ætlunina að ná jöfnuði í ríkisfjármálum eigi síðar en 2013 og ná því sem hann kallaði frumjöfnuði 2011. Stærðargráða verkefnisins væri sú að stefnt hafi í yfir 100 milljarð krónu halla. Við því hafi ríkisstjórnin þurft að bregðast.

Frumvarpið verður nú tekið til fyrstu umræðu. Ekkert annað mál er á dagskrá Alþingis það sem eftir lifir dags.




Tengdar fréttir

Niðurskurðarhnífurinn hátt á loft

Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjámálum var lagt fram á Alþingi í gærkvöldi. Í frumvarpinu er leitað leiða til þess að bæta stöðu ríkissjóðs eftir bankahrunið og með ýmsum aðgerðum er stefnt að því að ríkið fái 13 milljarða króna í auknar tekjur á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×