Innlent

Niðurskurðarhnífurinn hátt á loft

Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjámálum var lagt fram á Alþingi í gærkvöldi. Í frumvarpinu er leitað leiða til þess að bæta stöðu ríkissjóðs eftir bankahrunið og með ýmsum aðgerðum er stefnt að því að ríkið fái 13 milljarða króna í auknar tekjur á þessu ári. Að þessu viðbættu er einnig stefnt að miklum sparnaði í rekstri ríkisins og greinir Fréttablaðið frá því að meðal annars verði ferðakostnaður á næsta ári aðeins helmingur þess sem hann var hjá ríkinu í fyrra. Þá á að lækka útgjöld vegna stjórna og nefnda um helming og forðast í lengstu lög að ráða utanaðkomandi ráðgjafa til ríkisins.

Þá var lagt fram frumvarp í gær þess efnis að laun yfirmanna ríkisstofnana og -fyrirtækja verði felld undir kjararáð og fara á sérstaklega yfir laun ríkisstarfsmanna með mánaðartekjur yfir 400 þúsund krónum og lækka hlutfallslega mest laun þeirra sem hafa hæstu launin. Aksturskostnaður og risna verða skorin niður.

Ríkisstjórnin hyggst spara 5,5 milljarða í almannatryggingakerfinu, til dæmis með lækkun á frítekjumarki ellilífeyrisþega úr 1,3 milljónum króna í 489 þúsund krónur. Draga á úr framlögum til þjóðkirkjunnar um 450 milljónir og 420 milljónir sparist með því að hámarksgreiðsla úr fæðingarorlofssjóði verði 350 þúsund krónur. Virðisaukaskattur á sumar matvörur, á borð við sykur, sem áður báru sjö prósenta skatt, verður eftirleiðis 24,5 prósent, svo dæmi séu tekin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×