Innlent

Læknar krefjast þess að stríðandi fylkingar á Gaza virði Genfarsáttmálann

Fjöldi óbreyttra borgara hefur látið lífið í átökunum á Gaza.
Fjöldi óbreyttra borgara hefur látið lífið í átökunum á Gaza. MYND/Getty
Læknafélög Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur krefjast þess að stríðandi fylkingar á Gaza fylgi í einu og öllu ákvæðum Genfarsáttmálans til að vernda saklausa borgara og tryggja mannréttindi þeirra á stríðstímum.

Norrænu læknafélögin sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem þau brýna fyrir hlutaðeigandi að virða ákvæði sáttmálans um vernd óbreyttra borgara í stríði.

Í tilkynningunni segir að hundruðir borgara liggi særðir eftir að átökin á Gaza ágerðust á sama tíma og almennt heilbrigði og læknisþjónusta hefur farið úr skorðum. Ekki megi hindrað lækna og heilbrigðisstarfsmenn í að sinna störfum sínum.

„Okkur hafa borist fregnir frá norskum læknum starfandi á sjúkrahúsi á Gaza-svæðinu um þjáningar stríðshrjáðra borgara og knýjandi þörf þeirra fyrir læknishjálp. Báðir aðilar verða að tryggja nægar birgðir lyfja og tækja til meðhöndlunar á sjúkum og særðum, ásamt því að tryggja fólki drykkjarhæft vatn, nægan mat og húsaskjól sem er frumforsenda fyrir mannsæmandi heilsu. Norrænu læknasamtökin krefjast þess að hlutaðeigandi aðilar og alþjóðasamfélagið geri allt sem í þeirra valdi stendur til að lina þjáningar almennra borgara á svæðinu með því að semja um vopnahlé og frið," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×