Innlent

Stóra tóbaksmálið: Kosningahnappurinn minn svínvirkar

Jón Gunnarsson.
Jón Gunnarsson.

„Ég er mannaskástur í þessu," segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurður hvort hann sé drjúgur í neftóbaksneyslunni á Alþingi en þingmaður Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, gagnrýndi neyslu tóbaksins harðlega fyrr í dag. Hún hélt þá ræðu undir liðnum störf þingsins og sagði meðal annars:

„Því finnst mér skjóta skökku við þegar háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherra taka hér í nefið eins og ekkert sé sjálfsagðara. Mér finnst rétt að taka það fram að menn fara misdult með þetta og eru missnyrtilegur. Sumum tekst að gera þetta án þess að mikið beri á en aðrir eru hreinlega subbulegir og veifa vasaklútum með brúnum horklessum um þingsalinn og það á tímum svínaflensunnar."

Jón neytir neftóbaks og segir allnokkuð um það á þingi. „Ég hef aldrei gert þetta jafnmikið og eftir að ég komst inn á þing," segir Jón en ósiðurinn virðist hafa snarversnað með lýðræðislegu kjöri hans á þing.

„Ég held að þetta valdi engum sakað nema okkur sjálfum sem dundum okkur við það að taka í nefið," segir Jón.

Aðspurður hvort kosningahnappurinn hafi bilað á borðinu hans vegna grófrar neftóbaksneyslu svarar Jón: „Hnappurinn hefur aldrei bilað hjá mér. Hann svínvirkar Ég hef allavega ekki heyrt af þessu með stíflaða kosningakerfið."

Hann bætir við að þetta sé gamall og slæmur siður. Spurður hvort hann láti af honum vegna góðlátlegra tilmæla Margrétar um að hætta að taka í nefið í þingsal segir Jón: „Ég skoða þetta bara."


Tengdar fréttir

Kosningakerfi Alþingis stíflað vegna grófrar neftóbaksneyslu

Þingmaður Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir hélt ræðu á Alþingi undir liðnum störf Alþingis fyrr í dag og gagnrýndi þar harðlega neftóbaksneyslu þingmanna. Afleiðingar þessarar neyslu er meðal annars að kosningakerfi Alþingis virkar ekki alltaf sem skyldi vegna þess að kosningahnappar tóbaksþingmannanna stíflast af grófum kornum tóbaksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×