Innlent

Öll gögn verði opin almenningi

Víst er að margt leynist í gagnabönkum og geymslum íslenskrar stjórnsýslu. Nú vilja þingmenn allra flokka gera stjórnvöld skyldug til að upplýsa almenning, frekar en að almenningur hafi takmarkaðan rétt á upplýsingum. Nordicphotos/afp
Víst er að margt leynist í gagnabönkum og geymslum íslenskrar stjórnsýslu. Nú vilja þingmenn allra flokka gera stjórnvöld skyldug til að upplýsa almenning, frekar en að almenningur hafi takmarkaðan rétt á upplýsingum. Nordicphotos/afp
Forsætisráðherra á að lýsa því yfir hið fyrsta að öll gögn í umsjá opinberra aðila verði hér eftir opin og aðgengileg almenningi, nema brýnar ástæður séu til annars. Þetta segja tólf þingmenn úr öllum flokkum í nýlegri þingsályktunartillögu um opin gögn og rafrænan aðgang að þeim.

Í tillögunni er mælst til þess að hér eftir verði lögð áhersla á upplýsingaskyldu stjórnvalda, fremur en á upplýsingarétt almennings.

Með nýrri hugsun um upplýsingar megi komast hjá því að vilji stjórnvalda hverju sinni ráði því hvaða gögn séu aðgengileg almenningi.

Um leið ætti að endurskoða og skilgreina nánar hvaða ástæður teljist nægilegar til að hindra aðgang að gögnum.

Þar sem gögnunum hefur verið safnað fyrir skattfé sé eðlilegt að skattgreiðendur fái aðgang að þeim. Þetta séu gögn þjóðarinnar, kostuð af henni og unnin í hennar þágu.

Leynd valdi tortryggni og greiðari aðgangur að upplýsingum auki því traust á stjórnsýslunni. Þannig verði ráðuneytum og stofnunum veitt aukið aðhald.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Davíð Stefánsson, þingmaður VG. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×