Innlent

Hrunið skilur eftir úrgang í þjóðgarði

Á Valhallarstíg Umgengnin á lóð Ágústs Guðmundssonar í þjóðgarðinum við Þingvallavatn er mjög slæm að sögn formanns Þingvallanefndar.Fréttablaðið/Vilhelm
Á Valhallarstíg Umgengnin á lóð Ágústs Guðmundssonar í þjóðgarðinum við Þingvallavatn er mjög slæm að sögn formanns Þingvallanefndar.Fréttablaðið/Vilhelm

Gróður í friðlandi þjóðgarðsins við Þingvallavatn liggur undir skemmdum á sumarhúsalóð Ágústs Guðmundssonar við Þingvallavatn.

Ágúst, sem kenndur er við fyrirtækið Bakkavör og eignarhaldsfélagið Existu, keypti lítið sumarhús úr timbri á Valhallarstíg í apríl 2006.

Bústaðurinn var síðan rifinn á árinu 2007 og framkvæmdir hafnar við tvöfalt stærra steinsteypt hús sem nú hefur staðið hálfkarað frá því að fjármálakerfi landsins hrundi í byrjun október í fyrra og framkvæmdir stöðvuðust. Síðan hefur mikill úrgangur, meðal annars mörg tonn af grjóti sem Ágúst lét sprengja úr klöppinni á landinu, legið í stórum pokum ofan á viðkvæmum gróðri á lóðinni.

Álfheiður Ingadóttir, formaður nýrrar Þingvallanefndar sem tók við í haust, segir aðspurð að nefndin hafi enn ekki stuggað við Ágústi vegna frágangsins á lóðinni.

„Ég held að menn viti svo sem alveg af hverju þessi viðkomandi einstaklingur hefur ekki haldið áfram byggingarframkvæmdum. Hitt er annað mál að umgengni á byggingarstað er mjög slæm og hlýtur að koma til kasta nefndarinnar að skoða hvernig hægt er að bregðast við því,“ segir Álfheiður og minnir á að mikill styr hafi staðið um framkvæmdina, meðal annars vegna þess að notuð var þyrla við efnisflutninga.

Endurbygging hefur staðið yfir á tveimur öðrum lóðum við Valhallarstíg. Meðal annars á lóð Lauga ehf. sem er í eigu Björns Leifssonar og Hafdísar Jónsdóttur í World Class og lóð hjónanna Boga Pálssonar, fyrrverandi forstjóra Toyota, og Sólveigar Dóru Magnúsdóttur.

Þingvallanefnd hefur að sögn Álfheiðar ekki samþykkt útgáfu neinna nýrra byggingarleyfa í þjóðgarðinum frá því eftir alþingis­kosningarnar síðasta vor. Öll slík mál eru nú í endurskoðun hjá Þingvallanefnd.gar@frettabladid.is

Ágúst Guðmundsson
Álfheiður Ingadóttir


Úrgangur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×