Lífið

Kalli Berndsen í útrás

Karl Berndsen leggur nú lokahönd á kennslumyndband í förðun sem kemur út á Íslandi í lok október og er í viðræðum við dreifingaraðila í Evrópu um að koma því á markað þar.Fréttablaðið/Anton
Karl Berndsen leggur nú lokahönd á kennslumyndband í förðun sem kemur út á Íslandi í lok október og er í viðræðum við dreifingaraðila í Evrópu um að koma því á markað þar.Fréttablaðið/Anton

„Ég er með þrettán módel frá fimmtán ára upp í sjötugt," segir Karl Berndsen, hárgreiðslu- og förðunarmeistari og eigandi Beauty Barsins. Hann leggur nú lokahönd á kennslumyndband í förðun sem Beauty Barinn gefur út í lok október á Íslandi og er í viðræðum við dreifingaraðila í Evrópu.

„Þetta er mjög ítarlegt kennslumyndband. Ég farða hvert módel á tvo mismunandi vegu svo það er margs konar förðun tekin fyrir. Ég tek einnig fyrir einstök atriði eins og ælæner og sýni mismunandi gerðir og ásetningu, fer í muninn á milli púðurs og meiks og hvernig þú hugsar um sjálfa þig svo eitthvað sé nefnt. Þetta er í raun bara eins og „professional" námskeið fyrir venjulegar konur," útskýrir Karl. „Myndbandið er einnig hugsað fyrir Evrópumarkað því það er ekkert svona til. Það eina sem hefur verið gert er framleitt og kostað af tilteknum snyrtivörumerkjum, en þetta myndband er alveg óviðkomandi einhverju ákveðnu merki."

Karl mun ekki eiga í erfiðleikum með að talsetja myndbandið yfir á ensku þar sem hann bjó og starfaði um árabil í Bretlandi og vann með stórstjörnum á borð við ofurfyrirsætuna Naomi Campbell, tískuhönnuðinn Stellu McCartney og John Galliano og stúlknabandið Sugababes. Ekki skemmir fyrir að hafa góð sambönd þegar Karl herjar á Evrópumarkað.

Í lok september mun Karl snúa aftur á skjáinn í þættinum Nýtt útlit þar sem hann veitir góð ráð varðandi klæðaburð, hár og förðun. Þættirnir, sem hófu göngu sína síðasta haust á Skjá einum, hafa notið gríðarlegra vinsælda og í kjölfarið buðust Karli tilboð frá fleiri sjónvarpsstöðvum. „Það er ekki hægt að neita því að Stöð 2 sýndi áhuga. Það er alltaf gaman þegar verið er að bjóða í mann, en ég vildi vera trúr stöðinni sem gaf mér tækifæri í upphafi og mun halda áfram þar," segir Karl.

alma@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.