Lífið

Framleiðsla á minjagripum um Michael Jackson leyfð

Konungur poppsins skömmu fyrir dauða sinn á æfingu fyrir endurkomutónleika sína í London.
Konungur poppsins skömmu fyrir dauða sinn á æfingu fyrir endurkomutónleika sína í London.

Dómstóll í Bandaríkjunum hefur leyft sölu á varningi til minningar um poppgoðsögnina Michael Jackson. Föt, leikföng og í raun allt á milli himins og jarðar er á leiðinni í framleiðslu.

Síðan Jackson lést fyrir sjö vikum hafa lögfræðingar og dómstólar setið sveittir yfir erfðaskrá popparans og dánarbúi með það fyrir augum að hámarka tekjur skyldmenna hans í framtíðinni.

Auk alls varningsins sem fer í framleiðslu á næstu mánuðum eru fjölmörg önnur verkefni í pípunum. Fyrst má nefna tónleikamynd um kappann sem er í undirbúningi og verður sýnd víða um heim, þar á meðal hér á landi. Byggir hún á upptökum frá æfingum Jackson fyrir endurkomutónleika sína í London sem aldrei urðu að veruleika. Einnig stendur til að endurútgefa sjálfsævisögu hans og gefa út veglega Jackson-stofuborðsbók. Þar fyrir utan hefur sala á geisladiskum með Jackson aukist gífurlega eftir dauða hans og telur fyrrverandi lögfræðingur hans og einn af umsjónarmönnum erfðaskráarinnar, John Branca, að popparinn eigi eftir að þéna hátt í 26 milljarða króna á plötusölu, einungis á þessu ári. Þannig er safnplatan Number Ones ennþá í efsta sæti vinsældarlista bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. „Við ætlum að skoða hvað fjölskyldur stjarna eins og Marilyn Monroe, Frank Sinatra og Elvis Presley hafa gert eftir dauða þeirra. Við viljum notfæra okkur það besta frá þeim við mótun okkar stefnu,“ sagði Branca.

Annar lögfræðingur sem tengist dánarbúi Jackson segir: „Við eigum langa leið fyrir höndum. Michael Jackson er gríðarlega stórt nafn. Við höfum frábært tækifæri til að græða mikinn pening fyrir þá sem tengjast dánarbúinu, sem í dag eru móðir hans og börnin hans þrjú.“

Sú spurning kemur alltaf upp þegar stjarna eins og Jackson deyr hvort menn séu ekki á siðferðislega gráu svæði með því að reyna að græða á henni. Caspar Llewellyn-Smith, ritstjóri Observer Music Monthly-tímaritsins, segir í viðtali við BBC að það sé ekkert óeðlilegt við það. „Í hvert skipti sem stór stjarna deyr þá reyna allir að græða á henni á skjótfenginn hátt,“ sagði hann. „Það er hægt að halda utan um þetta á varfærnislegan hátt. Fólki þykir virkilega vænt um hann og ég get vel skilið að fólk vilji eignast hluta af honum.“

Miðað við það magn minjagripa og varnings tengdum Jackson sem á eftir að fara í framleiðslu og þann fjölda laga eftir hann sem mun hljóma á öldum ljósvakans er ljóst að þrátt fyrir dauða hans á konungur poppsins eftir að lifa um ókomin ár. Rétt eins og rokkkóngurinn Elvis Presley sem þénaði mest allra látinna stjarna á síðasta ári, eða um 6,7 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.