Innlent

Málningu skvett á hús Steingríms

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Við heimili Steingríms Wernerssonar í Árlandi í Reykjavík. Hann mun ekki hafa verið heima í nótt.
Við heimili Steingríms Wernerssonar í Árlandi í Reykjavík. Hann mun ekki hafa verið heima í nótt.
Blóðrauðri málningu var skvett á heimili Steingríms Wernerssonar í nótt. Þetta er í fimmta sinn sem eignaspjöll eru unnin á heimilum auðmanna eftir bankahrunið.

Um klukkan hálffimm í nótt barst lögreglu tilkynning um að rauðri málningu hefði verið slett á heimili Steingríms Wernerssonar að Árlandi í Fossvoginum. Hann mun ekki hafa verið heima. Enginn vitni voru að verknaðinum sem verður meðhöndlaður eins og hver önnur eignaspjöll á borð við veggjakrot, að sögn lögreglu.

Steingrímur og Karl bróðir hans standa á bak við fjárfestingarfélagið Milestone en félagið átti stóran hluta í Sjóvá. Í síðustu viku gerðu starfsmenn sérstaks saksóknara húsleitir í fyrirtækjunum. Rannsókn embættisins snýr meðal annars að meðferð bótasjóðs Sjóvár sem notaður var til að fjármagna fasteignaverkefni á vegum Milestone og Aska Capital.

Í byrjun mánaðarins var rauðri málningu skvett á heimili Björgólfs Guðmundssonar, Hannesar Smárasonar og Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka. Í vetur var úðað á hús í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar í Fossvoginum.

Eignaspjöll hafa því verið unnin á heimilum að minnsta kosti fimm auðmanna í kjölfar bankahrunsins síðastliðið haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×