Enski boltinn

Dómarinn viðurkennir mistök - Manchester United átti ekki að fá víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Howard Webb ræðir málin við Wayne Rooney.
Howard Webb ræðir málin við Wayne Rooney. Mynd/AFP

Dómarinn Howard Webb hefur viðurkennt að hann hefði ekki átt að gefa Manchester United vítaspyrnu í 5-2 sigri á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Webb dæmdi vítið í stöðunni 2-0 fyrir Tottenham eftir að hann mat sem svo að markvörður Tottenham, Heurelho Gomes, hefði fellt Michael Carrick. Á sjónvarpsupptökum sést vel að Gomes tók boltann fyrst.

Cristiano Ronaldo skoraði úr vítinu og markið kveikti í United-liðinu sem skoraði fjögur mörk á síðustu 23 mínútum leiksins.

„Ég er búinn að horfa á þetta aftur og þetta voru mistök," sagði Howard Webb í viðtali við BBC en ítrekaði að hann hafði dæmt þetta eftir bestu vitund og af heiðarleika.

„Ég sá leikmann Manchester United snerta boltann og sá hann lenda á markverðinum en ég missti af því þegar markvörðurinn komst í boltann," lýsir Webb.

„Ég er vonsvikinn því maður stefnir alltaf að fullkomnun. Ég ætla að horfa aftur á upptökurnar seinna í vikunni og ætla að læra af þessu og reyna að sjá til þess að þetta gerist ekki aftur," sagði Webb.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×