Lífið

Sótti innblástur í Rauðhettu

Hæfileikarík Andrea hefur starfað við tísku frá því hún lauk menntaskóla. Nú rekur hún sitt eigið hönnunarfyrirtæki. 
fréttablaðið/arnþór
Hæfileikarík Andrea hefur starfað við tísku frá því hún lauk menntaskóla. Nú rekur hún sitt eigið hönnunarfyrirtæki. fréttablaðið/arnþór

Fatahönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir er flutt heim á ný eftir að hafa lokið námi í fatahönnun við Margrethe-skólann í Kaupmannahöfn. Sem lokaverkefni sitt hannaði Andrea fatalínu sem kallast Rauðhetta Collection og sótti hún innblástur í samnefnt ævintýri.

„Ég var búin að ákveða að mig langaði að gera svolítið ævintýralegar flíkur og heillaðist af þessu litla, grimma ævintýri um Rauðhettu. Flíkurnar eru hugsaðar sem hluti af haust- og vetrarlínu þannig ég vann mikið með úlfa- og refaskinn,“ útskýrir Andrea, en hún hefur hannað undir eigin nafni frá árinu 2008.

Aldís Pálsdóttir, ljósmyndari í Danmörku, tók myndirnar fyrir Rauðhettu-línuna og segir Andrea samstarfið hafa gengið vel. „Hún er frábær ljósmyndari og það er æðislega gaman að vinna með henni. Hún er mjög fagleg og hæfileikarík og þegar við tókum Rauðhettumyndirnar var hún til dæmis löngu búin að ákveða í hvaða skógi við mundum taka hverja mynd.“

Að sögn Andreu hyggst hún opna verslun við Strandgötu í Hafnarfirði í lok mánaðarins, en hingað til hefur hönnun hennar einungis verið fáanleg á netinu. „Það eru margar konur sem vilja geta mátað og skoðað áður en þær kaupa flíkina. Eftir að ég flutti aftur heim hefur verið stöðugur straumur af viðskiptavinum heim til mín til að máta. Ég sá að það skipti greinilega ekki máli hvar maður er staðsettur og ákvað því að opna verslun við fallega götu í Hafnarfirði,“ segir Andrea. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.