Þeir aðdáendur Michaels Jackson sem keyptu miða á endurkomutónleika hans í London geta fengið miðann sinn endurgreiddan eða fengið sendan til sín miða sem minjagrip.
Um 750 þúsund manns höfðu borgað á milli 10 og 30 þúsund krónur fyrir miða á tónleikana sem áttu að fara fram í O2-höllinni. Þeir fyrstu áttu að hefjast 13. júlí og átti tónleikaröðinni ekki að ljúka fyrr en á næsta ári.
„Heimurinn missti góða sál og svo vildi einnig til að hún var mesti skemmtikraftur sem heimurinn hefur átt,“ sagði forseti AEG Live sem skipulagði tónleikana. „Hann elskaði aðdáendur sína og þess vegna viljum við koma jafn vel fram við þá eftir dauða hans.“
Þeir sem keyptu miða hafa frest til 14. ágúst til að svara því hvort þeir vilji endurgreiðslu eða fá miða sendan sem minjagrip. Miðarnir, sem eru til í átta mismunandi litum, voru sérhannaðir af Michael Jackson.