Innlent

Á Ísland rétt á sérstakri aðstoð vegna bágrar skuldastöðu?

Sigríður Mogensen skrifar
Skuldir ríkissjóðs eru komnar yfir þau mörk sem réttlæta sérstaka aðstoð vegna bágrar skuldastöðu. Skuldir ríkisins eru bilinu tvöfaldar til þrefaldar skatttekjur þess.

Útreikningar Seðlabankans á afleiðingum Icesave samningsins hafa verið gagnrýndir, en Seðlabankinn telur þjóðarbúið fyllilega fært um að standa undir greiðslum vegna Icesave.

Á vefsíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má finna upplýsingar um alþjóðlega mælikvarða á skuldir landa og hvernig reikna beri skuldastöðuna.

Ýmsar aðferðir eru notaðar þegar skuldaþol landa er metið.

Ein aðferð gengur út á að skoða hlutfallið milli erlendra skulda ríkisins og skatttekna ríkissjóðs. Samkvæmt mati Seðlabankans eru erlendar skuldir ríkisins með Icesave 1.159 milljarðar á þessu ári.

Í fjárlagafrumvarpi er áætlað að tekjur ríkissjóðs árið 2009 verði 450 milljarðar. Hlutfall skulda ríkisins af skatttekjum er því 258%.

Þetta hlutfall er notað til að meta hvort skuldir landa séu orðnar það háar að of kostnaðarsamt sé að standa undir þeim. Mörkin liggja við 250%.

Ef skuldahlutfallið fer upp í það eru lönd komin í hóp þeirra ríkja sem eiga rétt á sérstakri aðstoð vegna bágrar skuldastöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×