Innlent

Undirritun Icesavesamninganna í samræmi við lög

Viðskiptaráðherra segir engan vafa á því að farið hafi verið að lögum og stjórnarskrá þegar Icesave samningarnir voru undirritaðir. Hópur lögfræðinga vill meina að framkvæmdavaldið hafi farið út fyrir umboð sitt og undirbýr stefnu á hendur íslenska ríkinu.

Lögfræðingarnir vilja láta á það reyna fyrir dómi hvort framkvæmdavaldinu sé heimilt að binda íslenska þjóð í þær skuldbindingar sem kveðið er á í Icesave samningunum eða hvort einhver takmörk séu á slíku samningsumboði.

Í huga viðskiptaráðherra virðist lítil innistæða fyrir slíkri málshöfðun. Þingsályktunartillaga sem fól ríkisstjórninni beinlínis að leiða málið til lykta hafi legið fyrir með samningum.

„Síðan liggur líka fyrir að það er ekki skrifað upp á neitt nema með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þannig að það er óhugsandi að túlka þetta sem svo að framkvæmdavaldið hafi farið fram úr sér hvað þá að það hafi brotið stjórnarskrá," segir Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Icesave samningurinn var vísað til fjárlaganefndar á föstudag, kemur til meðferðar hjá nefndarmönnum á mánudag og því er enn töluvert í að Alþingi greiði um hann atkvæði. Samninginn sem í grunninn er sá sami og samninganefnd undir forystu Svavars Gestssonar skilaði í hús, auk þeirra fyrirvara sem samþykktir voru á Alþingi í sumar. Það voru embættismenn sem sátu í nefndinni sem kynntu Bretum og Hollendingum fyrirvarana. Svavar Gestsson vék sæti.

Þær raddir eru uppi að réttast hefði verið að skipta nefndarmönnum alfarið út, en þær virðast ekki hafa náð eyrum ríkisstjórnarinnar eða slíkt verið rætt innan hennar.

„Það kom allavega ekki inn á borð til mín. Ég þori engu að svara um það hvað aðrir ráðherrar hafa rætt um sín á milli," segir Gylfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×