Innlent

Gerir athugasemd við skýrslu Hagfræðistofnunar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinþór Skúlason er ekki sáttur við skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu landbúnaðarins. Mynd/ GVA.
Steinþór Skúlason er ekki sáttur við skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu landbúnaðarins. Mynd/ GVA.

„Það er mikilvægt að umræða og mikilvægar ákvarðanir byggi á réttum upplýsingum," segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, vegna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um áhrif af inngöngu í ESB á landbúnaðinn. Steinþór sat í nefnd, á vegum utanríkisráðuneytisins, sem skýrslan var unnin fyrir. Steinþór segist gera margvíslegar athugasemdir við skýrsluna og þær forsendur sem hún byggir á.

„Í skýrslunni er gefin sú forsenda að engin verðlækkun verði á kindakjöti við ESB aðild. Og þess vegna rýrni ekki hagur sauðfjárbænda heldur batni. Hér kemur ekki fram að byggt er á þeirri forsendu að verð á kindakjöti innanlands verði fyrir ESB aðild komið niður í útflutningsverð þar sem útflutningsskylda er fallin niður og þar með muni markaðsöfl þrýsta verði niður í útflutningsverð. Ef það gerist þá verður engin sauðfjárrækt á Íslandi því íslenskir sauðfjárbændur þola ekki þá 30-45% verðlækkun sem það mundi orsaka m.v. „venjulegt" gengi á íslensku krónunni," segir Steinþór.

Steinþór segist hafa komið þessum athugasemdum við skýrsluna á framfæri á síðasta fundi nefndarinnar. Nefndin hafi ekki lokið störfum og því veki það undrun að ráðuneytið skuli birta umrædda skýrslu án þess að skýra þau atriði sem bent var á er nefndin fjallaði um hana.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×