Erlent

Hræddu líftóruna úr frönskum ferðamönnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Tveir menn sem ráku ólöglega leigubílaþjónustu í New York hafa verið handteknir og ákærðir fyrir frelsissviptingu.

Þeim félögum er gefið að sök að hafa flúið undan lögreglu á ofsahraða með fimm franska ferðamenn í bílnum sem grátbáðu um að verða hleypt út. Farþegana tóku þeir upp í bílinn við John F. Kennedy-flugvöllinn en þar tíðka menn það mjög að bjóða ferðamönnum akstur gegn greiðslu þrátt fyrir að hafa ekki tilskilin réttindi til slíks. Mennirnir óku á rúmlega 100 kílómetra hraða um götur New York þrátt fyrir mikla umferð og marga gangandi vegfarendur og sinntu hvorki rauðum umferðarljósum né stöðvunarmerkjum lögreglu.

Þá veittu þeir mótspyrnu við handtöku og gætu átt yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi verði þeir fundnir sekir. Frönsku ferðamennirnir voru skelfingu lostnir en ákaflega fegnir þegar lögreglu tókst loks að króa bifreið mannanna af og stöðva för þeirra eftir háskaakstur um alla Manhattan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×