Erlent

Fékk leigumorðingja til að myrða yfirmann sinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Maður er í haldi lögreglu á Spáni, grunaður um að hafa fengið leigumorðingja til að myrða yfirmann sinn.

Ástæðan fyrir morðinu var einföld en allsérstök. Maðurinn óttaðist að yfirmaður hans hefði í hyggju að segja honum upp störfum. Atvinnumál á Spáni eru í allt annað en góðu horfi svo hinn óttaslegni undirmaður, sem starfaði sem tæknimaður í ráðstefnumiðstöð í Barcelona, réði sex Kólumbíumenn með aðstoð systur sinnar og réðu þeir yfirmanninn af dögum.

Þetta gerðist allt saman í byrjun febrúar síðastliðins og komst lögreglan til botns í málinu eftir langa og stranga rannsókn og handtók tæknimanninn núna í vikunni ásamt systur hans og leigumorðingjagenginu eins og það lagði sig. Samkvæmt dagblaðinu El Pais er þetta öfgafyllsta dæmið um þær ráðstafanir sem fólk hefur gripið til í þeirri viðleitni að halda starfi sínu. Hugmyndaríkir einstaklingar hafa þó gengið ansi langt.

Byggingarverktaki nokkur rændi útibússtjóra bankans síns og hafði hann í haldi um tíma í von um að fá lán, það brást reyndar, og annar úr sama geira hótaði skuldunauti sínum að hann myndi kveikja í sjálfum sér greiddi hinn honum ekki skuldina. Ekki fylgdi sögunni hver málalokin þar urðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×