Lífið

Litríkur fantasíuheimur

empire of the sun Dúettinn Empire of the Sun hefur vakið athygli fyrir grípandi og afslappaðar lagasmíðar sínar.
empire of the sun Dúettinn Empire of the Sun hefur vakið athygli fyrir grípandi og afslappaðar lagasmíðar sínar.

Elektródúettinn Empire of the Sun hefur vakið mikla athygli fyrir afslappaðar og grípandi melódíur sínar. Smáskífulagið Walking on a Dream hefur heldur betur hitt í mark.

Mennirnir á bak við Empire of the Sun eru Ástralarnir Luke Steele og Nick Littlemore. Hljómsveitin er eins konar hliðarverkefni þeirra því báðir hafa þeir haft öðrum hnöppum að hneppa í gegnum árin; Steele sem forsprakki indísveitarinnar The Sleepy Jackson og Littlemore sem meðlimur elektróbandsins Pnau.

Empire of the Sun, sem dregur nafn sitt af samnefndri skáldsögu J.G. Ballard frá árinu 1984, gaf út smáskífuna Walking on a Dream síðasta haust sem komst ofarlega á vinsældarlista í Ástralíu. Lagið kom sveitinni rækilega á kortið því samnefnd plata sem kom út í lok síðasta árs náði platínusölu í heimalandinu, auk þess sem titillagið hefur verið tilnefnt sem lag ársins í Ástralíu. Síðan þá hafa þeir félagar gefið út smáskífulögin We Are The People og Standing on the Shore, sem hafa einnig fengið góðar viðtökur. Tónlistarspekingar BBC tóku sig einnig til og settu Empire of the Sun í fjórða sætið yfir þá nýliða sem voru líklegastir til að ná langt á þessu ári. Á meðal annarra á listanum voru Little Boots, White Lies og Florence and the Machine.

Þrátt fyrir að hafa gefið út sína fyrstu plötu á síðasta ári hefur Empire of the Sun enn ekki haldið tónleika. Þeir fyrstu eru fyrirhugaðir á Parklife-hátíðinni í Ástralíu sem verður haldin dagana 26. september til 5. október.

Eins og útlit þeirra Steeles og Littlemores ber með sér líta þeir á hljómsveitina sem litríkan fantasíuheim þar sem allt getur gerst.

„Það er núna eða aldrei og við verðum að sækja fram á við. Það þýðir ekkert að halda aftur af sér og við höfum engu að tapa. Við viljum gera eitthvað sem er sérstætt og af öðrum heimi," sagði Steele í viðtali við BBC.

„Við höfum prófað hljómsveitapakkann, sem er mjög gaman, en okkur langaði að prófa að vera epískari og dramatískari. Við viljum byrja á einhverju sem er aðeins stærra en hljómsveitirnar sem við höfum verið í síðustu tuttugu árin. Við viljum meiri skemmtun, litadýrð, jákvæðni og melódíu inn í dæmið," sagði hann.

Eitt uppátæki sveitarinnar er að taka upp myndband við hvert einasta lag á plötunni víðs vegar um heiminn og gera síðan úr þeim bíómynd í fullri lengd.

Þegar hafa tökur farið fram hér á landi, í Kína og Mexíkó og verður forvitnilegt að sjá hvernig endanleg útkoma verður. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.