Fótbolti

Kraftaverkamaðurinn Drillo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Egil Drillo Olsen í leiknum í gær.
Egil Drillo Olsen í leiknum í gær. Nordic Photos / Bongarts

Norðmenn eru í skýjunum eftir 1-0 sigur norska landsliðsins á því þýska í vináttulandsleik liðanna í Düsseldorf í gær.

Christian Grindheim skoraði eina mark leiksins á 63. mínútu eftir sendingu frá Thorstein Helstad en Þjóðverjar, sem komust í úrslit EM í sumar, voru með sterkt lið í leiknum.

Norska landsliðið átti ekki góðu gengi að fagna undir stjórn Åge Hareide sem lét af störfum nú fyrr á árinu. Egil Drillo Olsen tók við liðinu tímabundið en samkomulagið var að hann yrði ráðinn áfram ef liðinu gengi vel undir hans stjórn.

Drillo hætti sem landsliðsþjálfari fyrir tíu árum síðan og hafði þá náð einhverjum besta árangrinum í sögu landsliðsins. Og nú virðist hann hafa tekið upp þráðinn þaðan sem frá var horfið en þetta var fyrsti sigur Noregs á Þýskalandi í 73 ár.

Síðast vann Noreg lið Þýskalands á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936 en þá var Adolf Hitler á meðal áhorfenda.

„Það er staðfest," sagði Verdens Gang, stærsta dagblað Noregs. „Drillo er kraftaverkamaðurinn."

„Gömlu góðu Drillo-töfrarnir," sagði Dagbladet.

Drillo kom Noregi í úrslit HM bæði 1994 og 1998. Undir hans stjórn náði norska landsliðið hæst í annað sætið á styrkleikalista FIFA. Þeir eru nú ófáir sem vilja að Drillo fái langtímasamning við norska knattspyrnusambandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×