Lífið

Kettlingarnir fengu ný heimili

Allir kettlingarnir þrjátíu eru komnir með nýtt heimili og hafa verið örmerktir.
Allir kettlingarnir þrjátíu eru komnir með nýtt heimili og hafa verið örmerktir. Mynd/GVA

Eins og Fréttablaðið greindi frá í lok maí höfðu aldrei fleiri kettlingar þurft að leita húsaskjóls hjá Sigríði Heiðberg í Kattholti. Þeir voru alls þrjátíu talsins, sumir illa á sig komnir eftir að eigendurnir höfðu skilið þá eftir upp á von og óvon. Sigríður sagði jafnframt að kreppan væri komin í Kattholt, minna væri um frjáls fjárframlög frá almenningi og því gengi erfiðlega að reka starfsemina.

Fréttin virtist hreyfa við ansi mörgum dýravinum því allir kettlingarnir þrjátíu eru nú komnir með ný heimili. „Þeir voru örmerktir og ég hef komið því þannig í kring að þeir verða allir teknir úr sambandi,“ segir Sigríður. Þá hafa dýravinir flykkst upp í Kattholt með mat og peninga þannig að hægt væri að halda gangandi þeirri starfsemi sem hefur reynst hinum loðnu ferfætlingum svo vel. Sigríður segir reyndar að hún muni varla eftir öðrum eins gestafjölda og komið hafi síðan fréttin birtist.

„Ég er afar þakklát öllu þessu góða fólki sem hefur komið hingað, það hefur verið einstaklega velviljað,“ segir Sigríður en sem dæmi má nefna að börn hafa selt blóm til styrktar Kattholti og svo mætti lengi telja. Við þetta má svo bæta því að íslenski kattamaturinn Murr verður bráðum í boði fyrir þá ketti sem þurfa að dvelja í Kattholti til skemmri eða lengri tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.