Lífið

Stillir til friðar á Gaza

Jóhann Páll er hvergi smeykur við að ferðast til Egyptalands, nágrannaríkis Palestínu, en þar logar allt í átökum við Gaza-ströndina.
Jóhann Páll er hvergi smeykur við að ferðast til Egyptalands, nágrannaríkis Palestínu, en þar logar allt í átökum við Gaza-ströndina. Fréttablaðið/vilhelm

„Ég hef alltaf farið í frí eftir jólavertíðina til að ná mér aðeins niður,“ segir Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi. Hann er á leiðinni til Egyptalands með fjölskyldu sína, lands sem margir myndu kannski hugsa sig tvisvar um að heimsækja í ljósi ástandsins í nágrannalandinu Palestínu. „Jú, það verður alveg að viðurkennast að Egyptaland var ekki fyrsti valkostur. Þegar bankarnir hrundu og gengið með þá tók ég eiginlega þá ákvörðun að leggja af þessa árlegu utanlandsferð. Mér þótti það bæði siðlaust og óverjandi að kaupa gjaldeyri á því verði sem hann er á í dag,“ útskýrir Jóhann og augljóst að honum er létt við að komast burt frá landinu.

Svo mikil var neyðin að á einum tímapunkti kom eiginkonan með þá hugmynd að fara með alla fjölskylduna norður í skíðaferð. „Jafnvel þótt hvorki ég né hún kunnum á skíði,“ útskýrir Jóhann sem tók heldur fálega í þessa skíðaferðarhugmynd, þótti það síður en svo skemmtileg tilhugsun að skipta út heitri sólinni og hvítum söndum fyrir naprar fjallshlíðar og stórhríð.

„Svo litlar undirtektir hlaut þessi hugmynd að konan mín hélt að ég væri orðinn afhuga henni,“ grínast bókaútgefandinn með.

En á annan í jólum rofaði til þegar Egill Örn sonur hans fann fín tilboð á lastminute.com. „Ég tók umsvifalaust gleði mína á ný þegar ég sá að það liggur við að Egyptar borgi fólki fyrir að koma í heimsókn þar sem ferðamönnum hugnast ekki það áhugamál þar um slóðir að sprengja ferðamenn í loft upp.“

Jóhann og fjölskylda héldu því til Egyptalands á hádegi á föstudag þrátt fyrir að Mið-Austurlönd bókstaflega logi vegna ófriðarins á Gaza-strönd. „Já, og hún er víst ekki lengi langt undan. Kannski að maður geti bara orðið að liði,“ segir Jóhann, hvergi smeykur og bætir því við að hann fljúgi frá Íslandi með góðri samvisku. „Eftir að ferðin var í höfn gat ég unnið af miklu kappi enda með góða gulrót á spýtunni.“

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.