Lífið

Vanvirðing að stela Pabbanum

Einleikur Bjarna, Pabbinn, hefur verið mikið sóttur á netsíðuna Viking Bay. fréttablaðið/rósa
Einleikur Bjarna, Pabbinn, hefur verið mikið sóttur á netsíðuna Viking Bay. fréttablaðið/rósa
„Ég veit ekki hvernig er hægt að bregðast við þessu," segir leikarinn Bjarni Haukur Þórsson. Mynddiskur hans, Pabbinn, hefur verið sóttur rúmlega 1.700 sinnum á netsíðunni Viking Bay síðan hann kom út um miðjan nóvember.

Stutt er síðan Laddi kvartaði við forsvarsmenn síðunnar yfir því að Laddi 6-tugur væri fáanlegur þar ókeypis. Hátt í sex þúsund manns sóttu diskinn á síðuna í síðasta mánuði.

Bjarni Haukur er að vonum ósáttur við gang mála rétt eins og kollegi hans. „Þetta er vanvirðing fyrir þá sem koma að þessu. Það kostar helling að gefa svona út," segir hann. „Þetta er vanvirðing við Senu og mitt félag og auðvitað líka Sigga (Sigurð Sigurjónsson leikstjóra)."

Bjarni Haukur segist ekki útiloka að höfða mál gegn Viking Bay í samráði við útgefandann Senu, rétt eins og Laddi hefur íhugað að gera. „Þótt maður sé með góða lögfræðiráðgjöf þá hef ég ekkert kannað þetta en þetta er fyrst og fremst vanvirðing við listamenn."

Pabbinn seldist í fjögur til fimm þúsund eintökum fyrir jólin og því eru hin stolnu eintök hátt í helmingurinn af því. Er því greinilega um töluvert fjárhagslegt tjón að ræða fyrir Bjarna Hauk og þá sem komu að gerð disksins. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.