Innlent

Streita, þunglyndi og kvíði í lögreglu

Einn af hverjum tíu lögreglumönnum virðist upplifa þónokkra streitu. Álíka fjöldi upplifir þunglyndi og litlu færri kvíða, samkvæmt könnuninni. Með hliðsjón af því má reikna með að 70 lögreglumenn þurfi meðferð við streitu eða þunglyndi árlega.Fréttablaðið/Pjetur
Einn af hverjum tíu lögreglumönnum virðist upplifa þónokkra streitu. Álíka fjöldi upplifir þunglyndi og litlu færri kvíða, samkvæmt könnuninni. Með hliðsjón af því má reikna með að 70 lögreglumenn þurfi meðferð við streitu eða þunglyndi árlega.Fréttablaðið/Pjetur
Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu eru stressaðri, þunglyndari og kvíðnari en starfsbræður þeirra á landsbyggðinni.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýbirtum niðurstöðum könnunar sem Ríkislögreglustjóri hefur látið gera á á streitu og líðan lögreglumanna.

Í skýrslunni kemur einnig fram að stjórnsýslutengd streita virðist almennari og meiri en streita, sem beint er hægt að tengja verkefnum lögreglu, hvað varðar höfuðborgarsvæðið. Þar er fyrst og fremst nefndur skortur á starfsfólki, of mikið skrifræði, ósamkvæmi í stjórnunarstíl, skortur á úrræðum og ófullnægjandi búnaður.

„Þetta eru einmitt atriði sem Landssamband lögreglumanna hefur verið að benda á í sínum málflutningi,“ segir Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna (LL). Hann segir sambandið fagna skýrslunni. „Þar kemur fram stuðningur við málflutning LL síðastliðin ár varðandi álag á lögreglumenn, sem meðal annars hefur skapast af undirmönnun í lögreglu og breytingum sem gerðar voru á skipan lögreglu í upphafi árs 2007. Þar var, að mati LL, farið nokkuð bratt í hlutina.“

Snorri segir að ofan á þetta bætist svo við sífelldar kröfur um hagræðingu í ríkisrekstri sem gert hafi það að verkum, að mati LL, að ekki verði lengra farið í niðurskurði til löggæslu í landinu.

LL hafi ítrekað bent á þessa hluti allt liðið ár til dæmis varðandi breytingar í lögreglu. Í skýrslunni kemur fram að gert sé ráð fyrir að sameiningarferli lögreglu höfuðborgarsvæðisins eigi að vera lokið innan fimm ára.

„Þetta er, að mati LL, áhyggjuefni eigi lögreglumenn að búa þrjú ár til viðbótar við það óvissuástand sem varað hefur innan lögreglu undanfarin rúm tvö ár. Það kann ekki góðri lukku að stýra að á sama tíma og slíkt óvissuástand ríkir í þjóðfélaginu skuli lögreglumenn eiga að búa við áframhaldandi streituvalda í starfsumhverfi sínu umfram það sem „eðlilegt“ er.“

Niðurstöður könnunar Ríkislögreglustjóra benda enn fremur til þess að lögreglumenn sem lokið höfðu námi við Lögregluskóla ríkisins væru stressaðri, þunglyndari og kvíðnari en ófaglærðir starfsbræður vegna aukinnar ábyrgðar hinna fyrrnefndu. Þá líði yngri lögreglumönnum meira eins og þeir séu alltaf í vinnunni og eigi of lítinn tíma með fjölskyldu og vinum. jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×