Innlent

Harkaleg átök í Framsóknarflokknum

Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknarflokksins og fyrrum þingmaður.
Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknarflokksins og fyrrum þingmaður.

,,Það er ekkert óeðlilegt við það að nýir menn gangi í flokkinn eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Guðmundur Steingrímsson og sjálfsagt að þeim fylgi eitthvað fólk. Ég geri til að mynda fastlega ráð fyrir að fjölskylda og vinir fylgi Sigmundi en þetta var auðvitað öðruvísi gjörningur," segir Sæunn Stefánsdóttir ritari Framsóknarflokksins og fyrrum þingmaður.

Fjölmargir mættu á mikinn hitafund Framsóknarfélags Reykjavíkur í gærkvöldi þar sem tekist var á um hvaða fulltrúar félagsins munu hafa kosningarétt á flokksþinginu sem fer fram um miðjan mánuðinn. Skömmu fyrir fundinn var inntökubeiðnum rúmlega 70 einstaklinga skilað inn á skrifstofu flokksins. Sæunn segir að þekktir kosningasmalar hafi beitt sér að mikilli hörku í aðdraganda og á sjálfum fundinum.

Fimm hafa gefið kost á sér til formennsku á flokksþinginu. Meðal þeirra eru Höskuldur Þórhallsson, Páll Magnússon og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Stuðningsmenn Sivjar Friðleifsdóttur og Páls tókust harkalega á í framsóknarfélögunum í Kópavogi árið 2005 en þar verða þingfulltrúar valdir á fundi í kvöld.

Ekki stuðningsmenn Páls

Ef til vill er ekki undarlegt að það sé spenna í flokknum, að mati Sæunnar. ,,Við eigum kost á því að vera fyrsti flokkurinn til að svara kalli tímans um endurnýjun og endurmat." Einhverjir hafi þó verið heldur kappsamir. Sæunn vill þó ekki segja til um á vegum hvers smölunin hafi verið. Komið hafi þó fram á fundinum að þeir sem stóðu að henni voru ekki stuðningsmenn Páls.

Sæunn segir að þekktur kosningasmali hafi skilað inn nýskráningunum í gær. Aðspurð hvort það sé eðlilegt segir Sæunn að skrifstofa flokksins hafi farið yfir skráningarnar og samþykkt þær. ,,Þetta var engu að síður gert með einkennilegum hætti því fólk gengur vanalegt sjálft í stjórnmálaflokka með því að hringja eða senda skrifstofu viðkomandi flokks tölvupóst."

Vonar að val á þingfulltrúum gangi betur

Flokksfélögum Framsóknarflokksins ber að skila skrifstofu flokksins listum yfir þingfulltrúa fyrir föstudaginn en undanfarna daga og vikur hafa verið haldnir fjölmargir aðal- og félagsfundir víðsvegar um landið.

,,Ég vona að valið fari vel fram á þeim fundum sem eftir eru og það verði með sama hætti og í öðrum félögum. Ég vona að gjörkvöldið hafi verið einstakt hvað það varðar."

Ekki náðist í Sigmund Davíð vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×