Fótbolti

Gott kvöld fyrir Íra

Robbie Keane er jafnan á skotskónum fyrir Íra
Robbie Keane er jafnan á skotskónum fyrir Íra NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í undankeppni HM 2010 í kvöld. Robbie Keane skoraði bæði mörk Íra sem unnu Georgíumenn 2-1 í 8. riðli og komust þannig upp að hlið Ítala með tíu stig í riðlinum.

Norður-Írar lögðu San Marino 3-0 á útivelli og jöfnuðu sinn stærsta útisigur frá árinu 1968 þegar þeir unnu Tyrki með sama mun.

Gareth McAuley, Grant McCann og Chris Brunt skoruðu mörk Norður-Íra í kvöld en það var ekki tóm gleði fyrir lærisveina Nigel Worthington, því hann missti þá Steven Davis og George McCartney báða í bann. Þeir missa af næsta leik liðsins í keppninni sem er erfiður heimaleikur gegn Pólverjum.

Norður-Írar hafa hlotið sjö stig í 3. riðlinum líkt og Pólverjar, Tékkar og Slóvenar, en hafa spilað einum leik fleiri en hinar þjóðirnar.

Í fyrsta riðli gerðu svo Malta og Albania markalaust jafntefli þar sem Maltverjar náðu í sitt fyrsta stig í undankeppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×