Innlent

Ólafur í Mjólku: Hyggur á framboð í Kraganum

Ólafur Magnússon.
Ólafur Magnússon.

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, hyggst bjóða sig fram gegn Siv Friðleifsdóttur í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. „Ég hef ákveðið að taka slaginn," segir Ólafur aðspurður um framboð.

„Ég tel að það sé kominn tími umbreytinga í Framsóknarflokknum. Menn þekkja afstöðu mína í umhverfismálum og verk mín í mjólkuriðnaði en ég hef lengi talað fyrir umbreytingu á landbúnaðarkerfinu," segir Ólafur en hann var í forsvari fyrir samtökin Sól í Hvalfirði á sínum tíma. „Ég var auðvitað í ákveðinni andstöðu við ráðandi öfl í flokknum þannig að ég tel mig vera fulltrúa breytinga í flokknum og ég held að ég geti lagt honum lið í því umbreytingastarfi sem framundan er," segir Ólafur sem segist vilja sjá prófkjör í kjördæminu.

Ólafur er samvinnuskólagenginn og starfaði í ungmennafélagshreyfingunni og segist hafa verið Framsóknarmaður lengi. „En ég studdi ekki áherslur Halldórs Ásgrímssonar og félaga hans í flokknum. Ég verð að vera alveg hreinskilinn og segja að ég treysti mér ekki til þess að kjósa flokkinn í síðustu kosningum," segir Ólafur.

Ólafi líst afskaplega vel á nýjan formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. „Hann er glæsilegur fulltrúi breytinga í flokknum. Hann hefur staðið sig gríðarlega vel og hann og hans vinnubrögð lofa mjög góðu," segir Ólafur og bætir við að hann langi til að taka þátt í að skapa nýjan Framsóknarflokk. „Ég er að þessu fyrst og fremst vegna þess að ég hef áhuga á pólitík og ég er tilbúinn að fara í þennan slag ef fyrir því er hljómgrunnur," segir Ólafur Magnússon að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×