Lífið

Gullmolar níunda áratugarins

Siggi Hlö með tveimur meðlimum Whitesnake á veitingastaðnum Hard Rock Café árið 1990.
Siggi Hlö með tveimur meðlimum Whitesnake á veitingastaðnum Hard Rock Café árið 1990.

Útvarpsmaðurinn Sigurður Hlöðversson, eða Siggi Hlö, hefur gefið út þreföldu safnplötuna Veistu hver ég var? Sextíu lög eru á plötunum þremur sem öll nutu vinsælda á níunda áratugnum.

„Það er búið að gefa út svo mikið af plötum með blöðrunum en þarna er ég að tína til gullmolana sem er ekki búið að maukkeyra í útvarpi," segir Siggi, sem stjórnar einnig samnefndum útvarpsþætti á Bylgjunni sem hefur notið mikilla vinsælda. „Ég geri ráð fyrir því að þetta verði söluhæsta plata sumarsins," segir hann kokhraustur um plötuna. „Hún fer í gull, það er alveg pottþétt."

Á meðal laga á plötunni eru Turn Me Loose með Loverboy, sem er mest umbeðna óskalagið í útvarpsþættinum, og tvö lög með Classix Nouveaux sem hafa ekki verið fáanleg hér á landi. Einnig má nefna slagara á borð við Do You Really Want To Hurt Me? með Culture Club og Save A Prayer með Duran Duran.

Auk þess að stjórna útvarpsþættinum er Siggi gríðarlega vinsæll plötusnúður og er bókaður út mest allt þetta ár. Segja má að hann sé sá næstvinsælasti á landinu á eftir Páli Óskari sem er einnig bókaður langt fram í tímann. „Ég er með bókun í maí 2010. Ég er bókaður út þetta ár enda er ég með tveggja tíma auglýsingaglugga á viku og fólkið vill fá að heyra þessi lög," segir hann.

Á myndinni sem fylgir fréttinni er Siggi í góðum félagsskap rokkaranna í Whitesnake sem komu hingað til landsins 1990. „Ég var búinn að fara út og hitta þá og þeir mundu eftir mér þegar þeir komu hingað. Ég fór á 100 þúsund manna rokkhátíð þar sem allir litu út eins og þeir tveir en ég var smjörgreiddur," segir hann og hlær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.