Innlent

Reyndi að smygla lyfjum í fangelsið á Akureyri

Lögreglan á Akureyri handtók í gærkvöldi stúlku á tvítugsaldri þegar hún reyndi að kasta pakka inn í fangelsisgarðinn á Akureyri. Pakkinn reyndist innihalda lyfseðilskyld lyf, sprautur og nálar. Fram kemur í tilkynningu að stúlkan var handtekin á Akureyri fyrir viku síðan vegna gruns um fíkniefnamisferli.

Í vikunni hafa komið upp fjögur önnur fíkniefnamál í umdæmi lögreglunnar á Akureyri. Á þriðjudag voru tveir drengir handteknir og reyndist annar þeirra vera með smáræði af fíkniefnum á sér. Í kjölfarið hélt lögregla til leitar í húsi í bænum, þaðan sem drengirnir voru að koma þegar lögreglan stöðvaði þá. Þar var karlmaður um þrítugt handtekinn og við leit á heimilinu fundust um 40 grömm af fíkniefnum, bæði af örvandi efnum og kannabisefnum.

Aðfaranótt laugardagsins voru höfð afskipti af tveimur aðilum í miðbæ Akureyrar sem reyndust hafa smáræði af fíkniefnum á sér, en lögregla var með óeinkennt eftirlit í og við skemmtistaði bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×