Fótbolti

Gunnleifur og Stefán til Vaduz

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnleifur í leik með íslenska landsliðinu gegn því hollenska í Rotterdam.
Gunnleifur í leik með íslenska landsliðinu gegn því hollenska í Rotterdam. Nordic Photos / AFP
Þeir Gunnleifur Gunnleifsson og Stefán Þór Þórðarson hafa samþykkt að ganga til liðs við FC Vaduz í Liechtenstein en félagið leikur í svissnesku úrvalsdeildinni.

Gunnleifur sagði í samtali við fréttastofu að hann færi utan á morgun til að ganga frá samningum en báðir semja þeir til 30. maí næstkomandi.

Stefán er kynntur til sögunnar á heimasíðu félagsins í dag en hann hafði gefið út í haust að hann ætlaði að leggja knattspyrnuskóna á hilluna.

„Þetta kom mjög snöggt til," sagði Gunnleifur en hann verður lánaður til félagsins frá HK. „Þeir hringdu á mánudaginn og spurðu hvort ég hefði áhuga á að koma út. Við skoðuðum málið og ákváðum að slá til."

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu og finnst þetta jákvætt. Fjölskyldan mun koma með mér út og ég held að þetta sé flottur staður til að vera á."

Guðmundur Steinarsson gekk í síðasta mánuði til liðs við Vaduz og líst Gunnleifi vel á að þeir verði þrír Íslendingarnir hjá félaginu.

„Ég og Gummi höfum verið herbergisfélagar í landsliðinu og þekkjumst því vel."

Spurður hvort líkur sé á því að hann verði áfram hjá félaginu að tímabilinu loknu sagði hann það óvíst.

„Það á eftir að koma í ljós. Ef okkur líkar vel við lífið þarna úti viljum við endilega vera áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×