Innlent

Mestir möguleikar til að draga úr notkun gróðurhúsalofttegunda eru í sjávarútvegi

Framkvæmdastjóri LÍÚ segir aðgerðirnar sem sérfræðinganefnd hafi lagt til algjörlega óraunhæfar. 
fréttablaðið/hari
Framkvæmdastjóri LÍÚ segir aðgerðirnar sem sérfræðinganefnd hafi lagt til algjörlega óraunhæfar. fréttablaðið/hari

Mestir möguleikar til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda liggja í sjávarútvegi, án tillits til kostnaðar. Talið er að tæknilega sé hægt að draga úr útstreymi vegna fiskimjölsframleiðslu um 100 prósent með rafvæðingu og draga úr útstreymi fiskiflota landsins um 75 prósent með aukinni notkun lífeldsneytis og orkusparnaðar. Þetta kemur fram í aðgerðaskýrslu sérfræðinganefndar á vegum umhverfisráðuneytisins, sem birt var í gær.

„Algjörlega óraunhæft er að fara í þessar aðgerðir nema verð á lífeldsneyti verði lægra en verð á olíu,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. Friðrik segir loftslagsnefnd sjávarútvegsins hafa sett fram tillögu um hvernig hægt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda síðasta haust. Þar er stefnt að því að dregið verði úr útstreymi um 20 prósent fyrir árið 2020. Í ljósi breyttra aðstæðna þurfi hins vegar að endurmeta þá skýrslu.

Í skýrslu sérfræðinganefndar umhverfisráðuneytisins eru raktir allir tæknilegir möguleikar sem koma til greina til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

„Ef ráðist yrði í þær allar komumst við 52 prósentum fyrir neðan grunnspá ársins 2020,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, formaður nefndarinnar. Hún segir að um sé að ræða tæknilega mögulegar aðgerðir, án tillits til kostnaðar.

Ekki er þó talið mögulegt að ná fram mikilli minnkun á losun frá stóriðju. Ástæðuna segir Brynhildur þá að erfitt sé að ná fram frekari minnkun í losun stóriðju. Álverin hafi staðið sig vel í að draga úr losun PFC-efna. „Notkun rafskauta í álverum hleypir hins vegar gríðarlegu magni gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og kolefnislaus rafskaut verða ekki komin á markað fyrir árið 2020,“ segir Brynhildur.

Tillögurnar felast margar í að binda gróðurhúsalofttegundir með endurheimtingu votlendis, fara í skógrækt og landgræðslu. Í aðgerðum um samgöngumál er lagt til að ráðist verði í að styrkja almenningssamgöngur og nota sparneytnari bifreiðar.

„Þetta snýst um að breyta hegðun samfélagsins,“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Hún segir að settur verði í gang aðgerðahópur sem vinna á tillögur á grundvelli þessarar skýrslu.

Ríkisstjórnin samþykkti á dögunum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 15 prósent fram til ársins 2020. Í samstarfsyfirlýsingu hennar kemur jafnframt fram að minnka skuli losun gróðurhúsalofttegunda um 50 til 75 prósent til ársins 2050.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×