Innlent

Stöðvaðir með fíkniefni sem ætluð voru til sölu á Akureyri

Lögreglan í Borgarnesi stöðvaði bíl á leið norður Vesturlandsveg um fimm leytið í morgun. Í bílnum voru tveir piltar um tvítugt og var ökumaðurinn grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Í kjölfarið var farið með piltana niður á lögreglustöð þar sem leitað var á þeim en einnig var leitað í bílnum. Á öðrum piltanna fundust fíkniefni og einnig í bílnum.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi var um að ræða um 50 grömm af amfetamíni og 50 grömm af kannabisefnum. Einnig fundust einhverjar pillur og lítið magn af kókaíni.

Piltarnir sögðu efnin ætluð til sölu og dreifingar á Akureyri og var sleppt að yfirheyrslum loknum.

Í gærkvöldi var annar ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna en fyrr um daginn hafði annar grunaðru verið stöðvaður.

Lögreglan hafði því afskipti af þremur ökumönnum sem allir eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna á sama sólarhringnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×