Innlent

Leirinn Steinólfur framleiddur í Dalasýslu

Vísir að leirverksmiðju er kominn á bóndabæ á Skarðsströnd í Dalasýslu. Leirinn nýtist bæði í listmuni og gólfflísar.

Við sögðum nýlega frá Sigríði Erlu Guðmundsdóttur, leirlistakonu í Stykkishólmi, sem býr til listmuni og nytjahluti úr íslenskum leir. Hún kallar leirinn Steinólf eftir Steinólfi Lárussyni, bónda í Ytri Fagradal, sem fyrir tuttugu árum sagðist eiga nóg af drullu fyrir hana til að vinna úr, - drullan í Dalasýslu væri í raun úrvalsleir.

Steinólfur er fluttur á elliheimilið í Búðardal en tengdasonurinn mokar leirnum upp úr dalnum og dóttirin, Halla Sigríður Steinólfsdóttir, annast frumvinnsluna. Í skemmu á bænum er hún með tækjabúnað til að verka leirinn fyrir kaupendur, sem eru orðnir nokkrir. Þeir nota hann í gólf, vinna úr honum glerung, myndlistarskóli kaupir hann sem og sjálfstætt starfandi leirkerasmiðir, sem nota leirinn í hitt og þetta.

Halla Sigríður lítur á leirvinnsluna sem aukabúgrein en fer varlega í yfirlýsingar um hvort þetta eigi eftir að verða atvinnuvegur. Fleiri hugmyndir hljóti að kvikna úr því að hún sé farin að brölta þetta og kveðst hafa trú á hráefninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×